132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:08]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem hér er til umræðu, um framlengingu á gildistíma laga nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, með síðari breytingum, er afrakstur samkomulags ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga frá því í vor. Það er lagt til að gildistími laganna framlengist um þrjú ár, eða frá og með 2006 til og með 2008, að óbreyttri árlegri fjárhæð, þ.e. 200 millj. kr. framlagi á ári þessi þrjú ár.

Lög nr. 53/1995 um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum gera ráð fyrir því að sveitarfélög geti notið styrks úr ríkissjóði vegna styrkhæfra fráveituframkvæmda sem fara fram á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005. Styrkurinn nemur allt að 200 millj. kr. á ári eða eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum. Þó verður upphæðin aldrei hærri en sem nemur 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs. Gert var ráð fyrir að á þessu 11 ára tímabili færu til málaflokksins allt að 2,2 milljarðar kr.

Framkvæmdir sveitarfélaganna á þessum vettvangi fóru hægar af stað en gert var ráð fyrir og það var fyrst á árinu 2003 sem reyndi á 200 millj. kr. framlagið. Til framkvæmdanna sem undir lögin falla fara á gildistíma laganna um 1,8 milljarðar kr. Á gildistíma laganna hafa orðið stórstígar umbætur í fráveitumálum á landinu og nú er talið að um 70–80% landsmanna búi við viðunandi hreinsun fráveituvatns í samræmi við settar reglur sem taka mið m.a. af reglum Evrópusambandsins. En auk þess eru gerðar strangari kröfur hér á landi til gerlamengunar. Þrátt fyrir þetta er töluvert óunnið innan málaflokksins, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum til sjávar og í þéttbýli inn til landsins. Því er fyrirsjáanlegt að framkvæmdir munu halda áfram á næstu árum. Þess vegna er nauðsynlegt að hægt verði að mæta kostnaði við þær næstu árin með sama hætti og verið hefur. Því er lagt til að lögin verði framlengd um þrjú ár til að mæta kostnaði þeirra sveitarfélaga sem þegar standa í fráveituframkvæmdum eða eru að hefja þær í samræmi við samþykktar áætlanir um heildarlausn þessara mála í sveitarfélögunum.

Í viðræðum sem fráveitunefnd umhverfisráðuneytisins, sem starfar samkvæmt lögunum, hefur átt við sveitarfélögin í landinu, sérstaklega þau sem ekki hafa þegar gengið frá sínum málum, hefur komið fram gagnrýni á að ekki sé heimilt að greiða fyrir rannsóknir á viðtökum en rannsóknir njóta ekki fjárstuðnings samkvæmt lögunum. Þessi kostnaður getur lent með mismunandi þunga á sveitarfélögunum, allt frá því að vera hverfandi hluti kostnaðar við heildarframkvæmdina upp í að skipta verulegu máli, sérstaklega þar sem viðtakinn er viðkvæmur, t.d. þar sem byggð er inni í landi og þar sem vatnssvæði eru viðkvæm. Sveitarfélögin eru því misvel sett hvað þennan kostnað varðar, ekki síst þau þeirra sem skemmst eru á veg komin í fráveituframkvæmdum. Því er enn fremur lagt til að heimilað verði að verja allt að 10 millj. kr. á ári á gildistíma laganna til rannsókna á viðtökum og yrði þá gengið frá málum á þann veg að þær rannsóknir gætu nýst sem best á landinu öllu þar sem eins háttar til eða ástand er svipað.

Að lokum er lögð til breyting á 3. gr. laganna eins og henni var breytt með lögum nr. 84/2005, en með þeirri breytingu var opnað fyrir möguleika til að styrkja sveitarfélögin til fráveituframkvæmda óháð því hvort þau fjármögnuðu framkvæmdirnar beint, eins og gert var ráð fyrir í lögunum, eða farin yrði leið einkaframkvæmdar. Um leið var sett hámark á fjárhagsstyrk sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna en ætlunin var að það ætti eingöngu við um einkaframkvæmdir. Því er nauðsynlegt að það komi skýrt fram í lögunum að það gildi ekki um allar framkvæmdir eins og ráða mætti af lagatextanum. Þetta þýðir að framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna geta notið jöfnunargreiðslna eins og framkvæmdin hefur verið hingað til og getur þá framlag til sveitarfélaga sem sjálf standa í framkvæmdum numið á bilinu 15–30% af heildarkostnaði, allt eftir kostnaði á íbúa. Þegar hins vegar er um að ræða einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu eða rekstrarleigu, getur framlagið aldrei orðið meira en sem nemur virðisaukaskatti af framkvæmdinni en hann nemur tæpum 20%.

Rétt er að vekja athygli á því að lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, fjalla eingöngu um styrkveitingar vegna fráveituframkvæmda en kröfur um hreinsun fráveituvatns er að finna í reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skolp, sem sett er á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, er því ætlað að auðvelda sveitarfélögunum að ná þeim markmiðum sem koma fram í áðurnefndri reglugerð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta frumvarp enda er því fyrst og fremst ætlað að framlengja gildistíma áðurnefndra laga um þrjú ár auk þess að heimilað verði að stunda tilteknar rannsóknir á viðtökum fráveitu með það að markmiði að það leiði til lækkunar á kostnaði við fráveituframkvæmdir á síðari stigum.

Ég legg til að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.