132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eins og fráveitumálum er háttað út um hinar breiðu byggðir, eins og stundum er sagt hér í stólnum, þá er ekki hægt að standa á móti þeirri tillögu um framlengingu lagagildis sem hér er lögð til. Hins vegar hefði kannski verið gott fyrir málið að fá lengri greinargerð þar sem m.a. hefði komið fram hvaða sveitarfélög hér er um að ræða, hver hafa staðið sig í þessu og hver ekki því að auðvitað er það þannig að þó að þau glími við misjafnan andstæðing að þessu leyti þá er þetta líka spurning um pólitískan vilja og forgangsröð. Ef hæstv. ráðherra getur ekki komið með þær upplýsingar hér hvaða sveitarfélög einkum er um að ræða þá kalla ég eftir þeim upplýsingum í nefndinni því það verður að vera á hreinu hvaða sveitarfélög hafa trassað þessar skyldur og hver hafa ekki gert það. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim vanda sem við er að etja í sumum sveitarfélögum.

Ég vil svo segja að hér er um verulega fjármuni að ræða sem við erum sífellt að framlengja. Það kemur ekki fram hér hvað við erum mikið á eftir þeirri tímasetningu sem miðað var við í tilskipun Evrópusambandsins í upphafi. Ég hygg að það séu orðin nokkur ár.

Í öðru lagi vekur athygli að hér hefur hæstv. ráðherra og fráveitunefndin góða lagt til að heimilt verði að ráðstafa allt að 10 millj. kr. ár hvert til rannsókna á viðtökum sem ekki var áður. Það vekur athygli mína að orðalag í þessu plaggi í heild sinni, frumvarpinu, greinargerðinni og umsögn fjármálaráðuneytisins eða fjárlagaskrifstofu þess, er ekki fullkomlega samhljóða. Ég spyr ráðherrann: Við hvað er átt með þessum rannsóknum á viðtökum? Í 2. gr. frumvarpsins stendur að heimilt sé að ráðstafa þessari fjárhæð, með leyfi forseta: „til rannsókna á viðtökum fráveitu með það að markmiði að þær leiði til lækkunar kostnaðar við fráveituframkvæmdir á síðari stigum.“ En í fylgiskjalinu sem auðvitað er ekki frumvarpið — en maður sér hvernig starfsmenn fjárlagaskrifstofunnar hafa skilið þetta — þá segja þeir að lagt sé til að heimilt verði að ráðstafa þessari fjárhæð til rannsókna á áhrifum fráveituframkvæmdanna á umhverfið.

Ég tel í raun og veru réttara, ef við föllumst á að samþykkja þetta frumvarp frá hæstv. ráðherra, að þá samþykkjum við það þannig að heimilt sé að veita fé til rannsókna á áhrifum fráveituframkvæmda á umhverfið, þeirra sem gerðar hafa verið, þeirra sem menn hafa farið í, á sama hátt og þeirra sem eftir á að ráðast í, því að auðvitað er það ósanngjarnt gagnvart þeim sveitarfélögum sem hafa þegar kostað miklu til — ég nefni dæmið í Reykjavík sem er auðvitað aðaldæmið á landinu — að þau sveitarfélög skulu hafa þurft að ráðast í rannsóknir á viðtökum, ef þau hafa þurft þess, án styrks en síðan þau sveitarfélög sem á eftir koma, trassarnir í hópi sveitarfélaga, annaðhvort óviðráðanlegir trassar vegna þess að þeir þurfa að færast mikið í fang eða bara trassar ósköp einfaldlega sem hafa ekki gert þetta, eiga að fá þennan styrk sem hér um ræðir samkvæmt nánari ákvörðunum ráðherra og hennar manna. Ég tel því heppilegra að í þessari 2. gr. verði þetta orðað eins og fjárlagaskrifstofan gerir, þ.e. að þessi fjárhæð sé veitanleg til rannsókna á áhrifum fráveituframkvæmda óháð því hvenær þær hafa verið gerðar en ekki eingöngu þeirra sem eftir eru. Þetta kann að vera lítill munur með suma þá hluti sem í þarf að ráðast. En hann getur verið mjög mikilvægur fyrir þau sveitarfélög sem hugsanlega lenda í vandræðum með fráveituframkvæmdir sínar og fyrir þau sem vilja gæta þess að viðtakarnir — átt er við haf eða önnur fyrirbæri þar sem fráveituframleiðslunni er eytt eða henni sundrað — þ.e. þar sem þeir geta verið viðkvæmir og menn vilja fylgjast með því hvernig háttar til um þá.

Þetta er það sem ég vildi segja í bili. Ég ítreka að ég geri ekki ráð fyrir að mikil andstaða verði við þetta frumvarp, a.m.k. ekki við fyrri hluta þess, í nefndinni eða á þinginu.