132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:24]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við gerðum breytingu á þessum lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum á síðasta þingi. Þá kom fram frumvarp til laga sem breytti þeim þannig að heimilt varð með sama hætti að veita styrki til stofnframkvæmda við fráveitur sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda var þá gert ráð fyrir að framkvæmdirnar féllu undir ákvæði 1. málsl. laganna og uppfylltu að öðru leyti skilyrði til úthlutunar samkvæmt þeirri grein.

Lögin um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum voru sett 1995 eins og hér kemur fram og þeim var ætlað að gilda í tíu ár. Nú hefur fjöldi sveitarfélaga staðið sig mjög vel og hefur lokið sínum fráveituframkvæmdum. Öðrum hefur gengið misvel. Eins og kom fram í ræðum á síðasta þingi þegar þetta mál sem ég gat um í upphafi máls míns var til umfjöllunar þá er ágreiningur meðal þingmanna um þessa hugmyndafræði um einkaframkvæmdina. Ég sjálf gat ekki staðið að niðurstöðunni með meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis. Ég skilaði því séráliti í málinu sem byggir á þeim sjónarmiðum mínum að þegar sveitarfélög eru rekin út á braut einkaframkvæmdar og sitja svo föst í neti leigusamninga til margra áratuga þá sé það fyrst og fremst út úr neyð vegna þess að tekjuskipting á milli ríkis og sveitarfélaga er ekki rétt, að ekki sé rétt gefið í þeim efnum.

Ég er enn jafnósátt við það að sveitarfélög skuli rekin út í einkaframkvæmd til að bjarga málum og redda jafnvel stórframkvæmdum og stórum eignum og miklum skuldum þar af leiðandi undan sínum rekstrar- og efnahagsreikningum. Ég sé því ekki að þetta sé nokkur lausn á vandanum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir í sambandi við fjármál sín.

Þó að megininntak þessa frumvarps sem við nú ræðum sé einungis framlenging á lögunum og ítrekun á því sem heimilt er hvað varðar einkaframkvæmdirnar, þ.e. að virðisaukaskattsupphæðin eða sú upphæð sem nemur virðisaukaskatti á þessum framkvæmdum geti verið endurgreiðsluhæf eða kræf, þá er ég samt sem áður í grunninn ósátt við þá hugmyndafræði sem breytingin frá því í fyrra byggir á. Ég stend því frammi fyrir ákveðnum vanda sem ég kem auðvitað til með að þurfa að gera upp við mig í vinnu nefndarinnar við málið.

Hins vegar sé ég ekki annað en að í 2. gr. frumvarpsins sé aftur verið að mismuna sveitarfélögum, þar sem sagt er að heimilt sé að ráðstafa allt að 10 millj. kr. ár hvert til rannsókna á viðtökum fráveitu með það að markmiði að þær leiði til lækkunar kostnaðar við fráveituframkvæmdir á síðari stigum. Ég held að óhjákvæmilegt sé að hæstv. umhverfisráðherra skýri þetta aðeins betur fyrir okkur, þ.e. hvort við eigum eftir að fá í meðferð nefndarinnar veruleg mótmæli frá Samtökum sveitarfélaga t.d. varðandi þetta atriði, hvort hér sé verið að mismuna þeim sveitarfélögum sem trassað hafa fráveituframkvæmdir sínar. Ef svo er þá er það ekki samkvæmt bókstafnum. Ég hefði því haldið að hér ætti að standa þannig að málum að eðlileg tekjuskipting sé til staðar á milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður að vera alveg ljóst hvar ábyrgðin liggur. Svona löggjöf sem á að reyna að redda hlutum í horn er í raun bara plástur. Það er verið að tjasla saman einhverjum lausnum frekar en að þær séu heildstæðar.

Verulega skiptar skoðanir voru á breytingunni á þessum lögum á síðasta þingi eins og ég sagði. Við eigum eftir að sjá hvort jafnskiptar skoðanir verða á þessum breytingum. Ég held að í grundvallaratriðum séu þær alla vega sakleysislegar að yfirbragði. En vera kann að hér liggi samt sem áður fiskur undir steini. Það á eftir að koma í ljós.