132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessar ágætu umræður og ég ítreka það að þessi heimild að verja allt að 10 millj. kr. á ári til rannsókna á gildistíma laganna á viðtökum, ég tel að hún sé mjög jákvæð og hún var sett fram eftir að fráveitunefndin var búin að fara ofan í kjölinn á þessum málum. Ég hef ekki í höndunum forsendu þeirrar tillögu en ég veit að það var gert að mjög vel yfirveguðu ráði. Það er þá í raun og veru verið að ganga þannig frá að þessar rannsóknir nýtist sem best á landinu öllu, þar sem eins háttar til eða ástand er svipað.

Það verður auðvitað að segjast eins og er að þau sveitarfélög sem hafa dregið að fara út í þessar framkvæmdir eru oft litlu sveitarfélögin því þar eru framkvæmdirnar alveg gríðarlega dýrar. Ég nefni t.d. alveg sérstaklega að á Austfjörðum er mikið verk óunnið, líka á Vestfjörðum og eins veigra sveitarfélögin inn til landsins sér við að fara út í svona framkvæmdir einmitt af þessum sökum. Það er því mjög jákvætt að það sé verið að koma með þessa heimild til að verja þessum fjármunum í rannsóknir.

Hvað það snertir að mismuna sveitarfélögunum þá tel ég að það sé ekki um neitt slíkt að ræða. Þegar lögin frá 1995 voru sett þá voru mörg sveitarfélög þegar komin af stað með fráveituframkvæmdir og þetta var ekki afturvirkt þannig að það er alveg ljóst að sum þeirra sem voru komin vel af stað fengu þá ekki styrki því að lögin giltu ekki um það sem lokið var.

Þannig hefur þetta verið. Það hefur ekki verið þannig að þó að þessir fjármunir hafi verið settir í þetta verkefni að ríkið hafi þar með verið að skuldbinda sig til að taka þátt í öllum fráveituframkvæmdum allra sveitarfélaga. Þetta gildir um ákveðið tímabil. Þannig er málið sett fram. Það er alveg ljóst að þessir fjármunir hafa komið að mjög góðu gagni. Það er búið að vinna gríðarlega mikið og merkilegt starf af hálfu sveitarfélaganna á þessu tímabili sem lögin hafa gilt og ég tel að það sé mikið fagnaðarefni hvernig til hefur tekist.