132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[16:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Með frumvarpinu er lagt til að nýr málsliður verði felldur inn í 23. gr. laganna. Er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða á um að innra eftirlit skuli að hluta eða í heild tekið út af faggiltum aðila. Ábending um þetta kom frá nefnd sem gerði tillögur að reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, nr. 942/2002.

Ályktaði nefndin að rétt væri að kveða á um að aðalskoðun leikvallatækja yrði framkvæmd af faggiltum skoðunaraðila. Í faggildingu felst að viðkomandi aðili er metinn hæfur af neytendastofu til að framkvæma umrædda skoðun samanber IV. kafla laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992. Þar sem það er mjög sérhæfð vinna að taka út leikvallatæki og leiksvæði samkvæmt stöðlum um þennan málaflokk er mikilvægt að tryggja að það sé gert af hæfum aðila með þekkingu á þessu eftirliti og að þekkingunni sé viðhaldið. Þetta er sérstaklega brýnt þar sem um er að ræða mikilvægt öryggisatriði til að draga úr og koma í veg fyrir slys á börnum. Faggilding tryggir að betur er haldið utan um hæfni skoðunaraðila, að eftirlit um land allt verði samhæft og að sá sem skoðar sé óháður rekstraraðila. Ákvæðið sem um ræðir er orðað með almennum hætti þar sem hugsanlegt er að æskilegt verði talið að kveða á um sams konar fyrirkomulag að því er varðar innra eftirlit í annarri starfsemi þar sem öryggi fólks er í húfi. Við samningu frumvarpsins verði haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, Neytendastofu og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur við undirbúning frumvarpsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.