132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[16:42]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi að ég hefði svarað þessu í framsögu minni en tilefni þessa máls er fyrst og fremst öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim sem hefur verið í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Ég reifaði almennt að eðlilegt væri að það væru aðrir aðilar sem væru faggiltir eða það væri heimild fyrir hendi til að fela þeim slíkt eftirlit.

Hins vegar er það réttur skilningur hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að þetta ákvæði er almennt orðað að því leyti til að á grundvelli þess væri hægt að nýta sér það t.d. með aðra starfsleyfisskylda starfsemi sem heyrir undir lögin um hollustuhætti og mengunarvarnir, ég nefni bara sem dæmi t.d. Dvalarheimili aldraðra eða daggæslu í heimahúsum, þar væri hægt að nýta sér þetta ákvæði.