132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[16:46]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni fyrr ályktar nefndin sem kom með þessa tillögu að aðalskoðun leikvallatækja, sem fer fram einu sinni á ári, verði framkvæmd af faggiltum skoðunaraðila og í þeirri faggildingu felst að viðkomandi aðili er metinn hæfur af Neytendastofu til að framkvæma umrædda skoðun. Þetta er samkvæmt IV. kafla laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992.

Það er mjög sérhæfð vinna að taka út leikvallatæki og leiksvæði, samkvæmt stöðlum um þann málaflokk, og það er mikilvægt að tryggja að það sé gert af hæfum aðila sem hefur þekkingu á eftirlitinu. Það er líka mikilvægt að tryggja að þeirri þekkingu sé viðhaldið. En þeir sem reka leiksvæði, leikvelli, leikskóla og önnur opinber svæði bera líka ábyrgð á að viðhald sé í lagi utan þess tíma sem skoðunaraðili gerir úttekt sína. Það er því mjög mikilvægt að þar sé staðið að öllu af ábyrgð þannig að hlutirnir séu í lagi á milli aðalskoðana.