132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[16:56]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana en með því er ætlunin að innleiða tilskipun 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið. Frumvarpið var samið af nefnd sem þáverandi umhverfisráðherra skipaði en auk formanns sitja þar fulltrúar frá umhverfisráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, samgönguráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum með því að fram fari umhverfismat tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Í frumvarpinu er gerð krafa um að tilteknar áætlanir skuli háðar umhverfismati. Þar er um að ræða skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem marka stefnu og varða leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt frumvarpinu ber m.a. að meta umhverfisáhrif áætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orkumál, iðnað, samgöngur og meðhöndlun úrgangs. Slíkar áætlanir skulu hafa verið undirbúnar eða samþykktar af stjórnvöldum, hvort heldur er ríki eða sveitarfélögum, og vera unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherrans, samanber 4. gr. frumvarpsins. Samgöngu-, landgræðslu- og skógræktar- og skipulagsáætlanir eru dæmi um áætlanir sem falla undir frumvarpið. Sá aðili sem ábyrgð ber á viðkomandi áætlunargerð ber jafnframt ábyrgð á umhverfismati hennar. Hann skal vinna umhverfismat fyrir áætlunina.

Umhverfismatið er unnið í formi umhverfisskýrslu og er skýrslan unnin samhliða vinnu við gerð viðkomandi áætlunar og getur hún verið hluti af greinargerð með henni. Í 6. gr. frumvarpsins er tilgreint með nákvæmum hætti hvaða þættir eigi að koma fram í umhverfisskýrslu en það skal m.a. lýsa þeim umhverfisþáttum og einkennum sem eru líkleg til að verða fyrir verulegum áhrifum af framkvæmd áætlunarinnar. Þá skal lýsa og meta hver séu líkleg veruleg umhverfisáhrif af framkvæmd áætlunarinnar. Umhverfismatið þarf að liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða Alþingi. Gert er ráð fyrir að kynna skuli tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu hennar fyrir almenningi, tilteknum stofnunum og hlutaðeigandi sveitarfélögum, samanber 7. gr. frumvarpsins. Þannig gefst þessum aðilum kostur á að koma með athugasemdir sínar og ábendingar við umhverfismatið sem er mjög mikilvægur þáttur í gerð þess.

Þegar stjórnvald afgreiðir sína áætlun ber því að hafa hliðsjón af athugasemdum sem borist hafa ásamt því að hafa hliðsjón af sjálfri umhverfisskýrslunni. Þegar stjórnvald hefur afgreitt áætlun sína ber því að gera áætlun og gögn henni tengd aðgengileg almenningi. Stjórnvöldum ber m.a. að gera grein fyrir því með hvaða hætti umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í viðkomandi áætlun, samanber 9. gr. frumvarpsins. Skipulagsstofnun er fengið nýtt hlutverk varðandi framkvæmd laganna en stofnunin skal veita leiðbeiningar og ráðgjöf um umhverfismat áætlana. Skipulagsstofnun ber ekki ábyrgð á gerð umhverfismatsins heldur þeir sem vinna að viðkomandi áætlunum, eins og ég sagði áður. Hlutverk Skipulagsstofnunar verður hins vegar að gefa út leiðbeiningar um umhverfismat áætlana til að tryggja að unnið sé með samræmdum hætti og ber Skipulagsstofnun að fylgjast með framkvæmd laganna. Mikilvægt er að einn aðili hafi slíkt samræmingarhlutverk enda eru þessar áætlanir unnar af mörgum og eru mjög mismunandi að umfangi. Nú er unnið að gerð leiðbeininga Skipulagsstofnunar og er gert ráð fyrir að þær verði gefnar út samhliða því að lögin taki gildi.

Með þessu frumvarpi er hugsunin sú að gert sé umhverfismat á áætlunarstigi svo hugað sé að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku og þannig verði hægt að draga úr verulega neikvæðum umhverfisáhrifum slíkra áætlana.

Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.