132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er komið fram merkilegt frumvarp sem reyndar hefur verið beðið eftir hér á þinginu. Ég hygg að okkur hafi borið skylda til að afgreiða það nokkru fyrr, hugsanlega 21. júlí 2004 sýnist mér á frumvarpinu þó að það sé ekki tekið fram í greinargerðinni nákvæmlega, að minnsta kosti hef ég ekki fundið það.

Ekki hefur gefist mikill tími til að fara yfir frumvarpið þó að tæknilega fari þessi umræða fram samkvæmt þingsköpum tveimur nóttum eftir að það var lagt fram. Það var lagt fram á föstudag þannig að næturnar sem um ræðir eru aðfaranætur laugardags, sunnudags og mánudags, þ.e. þrjár nætur sem við höfum fengið til að skoða þetta. Ég ætla ekki að atyrða hæstv. umhverfisráðherra fyrir það. Við höfum kallað eftir því á þinginu að fá stjórnarfrumvörpin inn í tæka tíð fyrir jólin, og ég þakka ráðherranum fyrir að hafa komið með það hingað á þessum tíma, enda gefst okkur vissulega tími til að skoða þetta í nefndinni.

Það eru þó nokkur atriði sem mig langar ýmist að vekja athygli á eða spyrja ráðherrann um. Í fyrsta lagi af því að ég heyrði enga skýringu á því hvers vegna markmiðsákvæði frumvarpsins til laga um umhverfismat áætlana er annað en markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Í lögunum um umhverfisáhrifamatið, MÁU eins og tæknimennirnir kalla það, eru markmið laganna talin fram í fjórum liðum, a, b, c og d, en hér er aðeins um einn lið að ræða, þ.e. að: „stuðla að sjálfbærri þróun“ — sem er í hverjum einustu lögum og hefur eiginlega algjörlega misst gildi sitt vegna þess að sjálfbær þróun er hvergi skilgreind í þeim frumvörpum og lögum sem ríkisstjórnin hefur sett fram eða látið samþykkja — og síðan þetta sem er hið efnislega inntak, með leyfi forseta: „og draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana sem líklegar eru til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið“.

Í markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er hins vegar fyrst talað um í a-lið að áður en framkvæmd fer fram sem geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum hennar, í öðru lagi að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum, í þriðja lagi að stuðla að samvinnu þeirra sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða og í fjórða lagi að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda.

Nú er það svo að áætlun er annað en framkvæmd, áætlanirnar eru víðtækari og það er innan þeirra að réttu lagi sem framkvæmdirnar eiga sér stað þannig að það kann að þurfa að vera einhver munur á markmiðum laga um áætlanir annars vegar og um einstakar framkvæmdir hins vegar. Ég bið um skýringar á þessu.

Í öðru lagi, og það skiptir meira máli, er mismunandi orðalag haft á frumvarpinu sem hér liggur fyrir og lögunum um mat á umhverfisáhrifum í sömu grein, 1. gr. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er talað um „umtalsverð umhverfisáhrif“ og orðið „umtalsverð“ á sér, eins og þeir sem í salnum eru vita, nokkuð langa sögu. Þegar frumvarp að þeim lögum sem nú gilda um umhverfisáhrif, nr. 106/2000, kom fram var, að ég hygg, líka talað um „veruleg umhverfisáhrif“ en það var meðferð mála hér í þinginu sem breytti því orðalagi í „umtalsverð“ eins og það hafði verið í fyrri lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Hér hafa menn hins vegar ekki haldið sig við orðið „umtalsverður“, heldur erum við komin með orðið „verulegur“, veruleg neikvæð umhverfisáhrif. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er orðið „umtalsverður“ skýrt í 3. gr. Það er skýrt þannig að nánast eins og í fyrri lögum séu umtalsverð umhverfisáhrif, með leyfi forseta:

„Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Um þessa skilgreiningu hefur verið töluvert fjallað en niðurstaðan varð sú á sínum tíma að sú skilgreining væri inni og á bak við það voru ýmis rök sem ég hirði ekki um núna að færa fram. Það varð sem sagt niðurstaða meiri hlutans á þinginu, og á það má minna að við samfylkingarmenn vorum hluti af þeim meiri hluta og stóðum að frumvarpinu að lokum við 2. og 3. umr. sem auðvitað var ekki sjálfsagt fyrir okkur, og kannski ekki sjálfsagt fyrir stjórnarliða heldur á þeim tíma. Sú varð engu að síður niðurstaðan.

Ég tel að þessi mismunur sé óheppilegur og að það sama hljóti að gilda um áætlanamatið og lög um mat á umhverfisáhrifum að þessu leyti.

Í þriðja lagi kemur mér á óvart, þó að ég sé ekki beinlínis að gagnrýna það vegna þess að ég geri ráð fyrir að þurfa að hlusta á skýringar við það, að Skipulagsstofnun er ætlað allt annað hlutverk og annað vægi í frumvarpinu en í lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim lögum og því ferli sem gekk fram af þeim gefur Skipulagsstofnun út álit á umhverfisplöggum þeim sem framkvæmdaraðilinn hefur sett fram. Hér er ekki um það að ræða, heldur það að Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar og síðan fylgist Skipulagsstofnun með því mati sem fram fer og er skýrt í skilgreiningunum. Þetta er undarlegur munur því að ekki verður séð að áætlanirnar séu að þessu leyti svo mismunandi að Skipulagsstofnun eigi ekki að viðhafa sömu vinnubrögð, hvort sem um áætlun eða mat er að ræða. Aðrar kröfur hljóta að vera gerðar til álits Skipulagsstofnunar um áætlun en um mat, að áætlun um mat sé nákvæmari og þrengri, að þar sé krafist meiri rannsókna og farið meira í smáatriði, en í áliti Skipulagsstofnunar, sem mér finnst eiga að gera ráð fyrir, um áætlanir. Eðli áætlana er auðvitað þannig að þar hlýtur Skipulagsstofnun að nota aðra kvarða en við hljótum að ætlast til þess að Skipulagsstofnun gefi líka út álit sitt á þessum áætlunum alveg eins og hún gerir um einstakar framkvæmdir.

Mér sýnist satt að segja, og það skýrist betur þegar við fáum menn í heimsókn til okkar með skipurit og ferligreiningar, að hér sé um það að ræða að sá sem áætlunina gerir eigi vissulega að auglýsa þá áætlun og taka við athugasemdum um hana en ráði því svo fullkomlega sjálfur hvernig áætlunin lítur út að lokum. Svo er þó ekki með mat á umhverfisáhrifum því að þar verður hann að taka ákveðið mark á áliti Skipulagsstofnunar, a.m.k. er álit Skipulagsstofnunar opinbert plagg, jafnvel þó að það sé ekki þess eðlis að framkvæmdaraðilinn taki mark á því, þannig að almenningi og þeim sem um véla, tæknimönnum og stjórnmálamönnum, gefist kostur á að sjá um hvað er að ræða, hverju framkvæmdaraðilinn tekur mark á og hverju ekki. Ég tel að fái ég ekki viðhlítandi skýringar á þessu hljóti þetta að vera eitt af því sem nefndin þarf að leggjast yfir og þarf að breyta í þessu annars ánægjulega frumvarpi.

Í fjórða lagi, og það kemur kannski ekki nákvæmlega ákvæðum frumvarpsins við, er rétt að vekja athygli á að þegar til eru orðin lög um umhverfismat áætlana fer að koma að því líka að við virðum fyrir okkur um hvað á að setja áætlanir í samfélaginu. Auðvitað er það eins og hver önnur tilviljun að til er náttúruverndaráætlun og til er samgönguáætlun. Þingið hefur í samvinnu við framkvæmdarvaldið talið henta vinnubrögðum sínum hvenær eigi að vera áætlanir og hvenær menn gangi til ákvarðana um einstakar framkvæmdir. Þetta vekur þá spurningu af hverju ekki er til t.d. stóriðjuáætlun hjá ríkisstjórninni sem hafi þá fengið einhverja samþykkt á Alþingi og þá umfjöllun í heild, til sex ára, 10 eða 20, sem hún á að fá. Af hverju höfum við ekki samtímis samþykkt orkuáætlun? Stóriðja og orkumál hafa verið ein helstu deiluefni í Íslandssögu okkar tíma, í a.m.k. 35 ár. Upphaf þeirra markast kannski annars vegar af Laxárdeilunni frægu í kringum 1970 og hins vegar af því þegar Magnús Kjartansson, þáverandi iðnaðarráðherra, gerði álverinu að taka upp mengunarbúnað sem ég hygg að hafi verið í fyrsta sinn á landinu sem iðjuveri var gert að gera það.

Um þetta er engar áætlanir. Þessi mál, stóriðjan og orkumálin, mundu því gjörsamlega sleppa við nokkurt mat eða nokkra athygli sem sprytti af þessum lögum ef frumvarpið verpist í lög að lokum. Það er spurning sem ég vil að lokum beina til hæstv. umhverfisráðherra í þessari lotu, hvort hún vilji ekki beita sér fyrir því að um stóriðjumál, orkumál og önnur þau málasvið og -flokka sem helst snerta umhverfisráðherrann og valdsvið hennar og jarlsdæmi verði gerðar þær áætlanir sem þingið geti talað saman um. Þær verði settar í umhverfismat fyrir fram sem heild en ekki látið við það sitja að bíða einstakra framkvæmda sem í þessum málasviðum sem ég nefndi eru oft svo ævintýralegar að í raun gætu aðrar áætlanir rúmast allar saman í einni slíkri framkvæmd, samanber t.d. Kárahnjúkavirkjun sem er svo stórkostleg að það er eiginlega alveg sama hvað við hefðum gert í því að eyðileggja umhverfið með öðrum hætti, að það hefði allt saman þurft að víkja fyrir hinni miklu virkjun við Jöklu.