132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:33]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er ég ekki með þær tilskipanir sem um ræðir og get þess vegna ekki farið í rökræður við hæstv. umhverfisráðherra um þýðingamál sem væri fróðlegt og skemmtilegt að gera, en kannski gefst tækifæri til þess síðar, a.m.k. við starfsmenn umhverfisráðherrans í nefndinni.

Hins vegar er athyglisverður þessi munur á orðalagi um hluti sem ekki eru eðlisóskyldir þó að þeir séu að vísu ekki eins í sjálfu sér, mat á áætlun og mat á einstakri framkvæmd. Í lögunum eins og þau koma frá þinginu stendur um mat á framkvæmd að það sé spurning um „umtalsverð umhverfisáhrif“, eins og kemur fram 1. gr. og síðan er talað um í b-liðnum: „að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar“. Hér er þessu sem sé slegið saman í það að dregið sé úr „verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum“.

Þá auðvitað spyr maður bara eins og almenningur gerir: Bíddu, er þá ekki verið að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum eins og á að gera í umhverfisáhrifamatinu, heldur bara úr verulegum? Og hvar er skýringin á því sem löggjafinn, ef þetta verður að lögum, telur veruleg neikvæð umhverfisáhrif? Þeirri spurningu svarar frumvarp þetta eða greinargerð ekki. Það er ekkert í þeim texta í III. kaflanum sem ráðherrann las upp, og ég hafði skotist yfir, sem í rauninni gerir grein fyrir þessum mun þó að munurinn sé á ýmsan hátt ágætlega útskýrður, sem ekki er kannski mjög erfitt að skýra, á einstakri framkvæmd og síðan áætlun eins og samgönguáætlun eða þeirri stóriðjuáætlun sem ég spurði ráðherrann um sérstaklega áðan en hef ekki fengið svar við.