132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:25]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég hef tekið þátt í því að reyna að gera þetta gallaða kerfi betra úr því að það var samþykkt hér og er hlynntur því að framlengja þann frest þar sem olíugjaldið var lækkað vegna þess hve þetta er orðið miklu hærra en við ætluðum verð per olíulítra.

Það eru tvö til þrjú atriði sem ég vildi gera stutta athugasemd við hæstv. ráðherra og spyrja hann út í hvort hann óttist ekki að það hreinlega komi kæra vegna þess að menn sitji ekki við sama borð, líkt og í þeim dæmum sem ég tók áðan, t.d. með námubíla, sem stundum eru kallaðir búkollur, og vörubíla. Við skulum segja að það séu bara tveir óskyldir aðilar sem eiga svona tæki og þeir eru að bjóða til verktaka til að taka þátt í vinnu við verk. Þeir sitja ekki við sama borð. Annar aðilinn þarf að borga hátt olíugjald, hinn ekki og þeir eru að vinna á sama svæði. Þetta getur engan veginn gengið að mínu mati.

Annað atriðið, sem er raunar hinu skylt, snýr að dráttarvélum. En ég hygg að á næstunni, eftir þessa breytingu verði töluverður innflutningur á dráttarvélum. Það munu margir færa sig yfir í það, t.d. sveitarfélögin, og vörubílar verði þá eitthvað minna notaðir. Ég velti þá fyrir mér dæmi eins og þegar verið er að keyra t.d. þökum á vegum sveitarfélags, annars vegar með vörubíl sem þarf þá að borga olíugjald og hins vegar með dráttarvél með sturtuvagni sem þarf þá ekki að borga olíugjald. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann óttist þá ekki að t.d. þessir vörubílaeigendur muni hreinlega kæra það að þeir sitji ekki við sama borð?

Nú ætla ég ekkert endilega að tala um hvort allt eigi að vera gjaldskylt eða ekki, þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um þessa jafnræðisreglu.

Í þriðja lagi, virðulegur forseti, samkvæmt reglugerðinni sem gefin verður út eru slökkvibílar, þ.e. körfu- og dælubílar undanþegnir en aðrir bílar í eigu slökkviliðsins sem eru geymdir í sama húsi og fara að sama eldsvoðanum eru það ekki. Hvar ætlum við að enda í þessum vitleysisgangi?