132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því hvernig lífið gengur fyrir sig úti á landsbyggðinni og það er auðvitað eðlilegt fyrir mann sem er búsettur þar og er þingmaður fyrir landsbyggðarkjördæmi. Ég held samt að það sé dálítið mikil einföldun í því sem kemur fram hjá honum að þetta frumvarp og það skipulag sem hér um ræðir hafi jafngríðarlega mikil áhrif á allt lífsumhverfið og hann vill meina, hvort heldur hann ræðir um áhrif á vöruverðið eða áhrif á sjávarútveginn hvað þá rækjuiðnaðinn. Ég held að það séu mjög miklar ýkjur að breyting á olíugjaldskerfi og þungaskattskerfi sé atriði númer tvö hvað rækjuiðnaðinn varðar. Þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða offramboð á erlendum mörkuðum, verðið er lægra, það er erfiðara um veiði. Olíuverð er hátt til útgerðarinnar en á þeirri olíu er ekkert olíugjald þannig að flutningskostnaður innan lands á milli fyrirtækja hlýtur að vera fyrir neðan alla þá þætti sem ég nefndi. Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru hlutir sem við þurfum alltaf að hafa í huga þegar fjallað er um þessi mál því að auðvitað skipta þeir allir máli.

Því má heldur ekki gleyma að einhvern veginn verðum við að fjármagna vegagerðina og við höfum valið að gera það á þennan hátt, með gjaldtöku á þá sem vegina nota. Annars staðar eru svipuð kerfi við lýði. Eins hafa menn uppi hugmyndir um að gjaldheimtan af eldsneytinu ætti ekki að vera sérstaklega til vegagerðar heldur ætti hún að vera af umhverfisástæðum og ætti að réttlætast af því. Á þeim forsendum ætti hún jafnvel að vera enn þá meiri en hún er í þessu tilviki. Það eru því mörg sjónarmið og margir fletir sem koma upp í þessari umræðu. Við ættum ekki að gera of mikið úr þeim vandamálum sem erum að reyna að leysa úr í þessu efni því að kostirnir eru umtalsvert miklu fleiri en gallarnir.