132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að sönnu rétt ef skoðuð eru þingskjalsnúmer þessara mála að frumvarpið um réttarstöðu samkynhneigðra er yngra og seinna fram komið. Það er líka mál sem lengi hefur verið beðið eftir og menn fagna að er hér fram komið og engin ástæða til að ætla annað en að góð samstaða geti orðið um að afgreiða það fljótt og vel. Mönnum finnst þarf af leiðandi fara vel á því að það sé tekið fyrir fyrst á þessum fundi, umræðu um það lokið og það afgreitt til nefndar. Það breytir að sjálfsögðu engu um það þó að þingskjalsnúmer mála séu mismunandi, hægt er að haga fyrirtöku þeirra á fundinum eins og menn vilja og eins og forseti með samkomulagi við þingmenn ákveður. Og ef samstaða væri um að greiða götu þessa máls og byrja á því mundi ég telja að það færi mjög vel á því. Það er alveg ljóst að um 7. dagskrármálið er mikill ágreiningur, það tengist málapakka sem ýmist eru fram komin eða óframkomin og er hluti af miklu stærra og umdeildara samhengi og mun kalla á mikla umræðu.

Ég tek eindregið undir þá ósk eða tillögu að forseti víki þannig til röð mála og spyr að því hvort nokkur sé því andvígur og ef svo er ekki, hvort ekki sé þá einboðið að verða við þessari tillögu að 8. málið verði tekið fyrir fyrst að afloknum atkvæðagreiðslum.