132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:36]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel það frekar einkennilega ósk sem er hér fram komin. Forseti hefur fært rök fyrir því af hverju dagskráin er svona upp sett. Það var jafnframt rætt um þetta á fundi formanna þingflokka með forseta. Það hefur því alltaf legið fyrir að þessi tvö mál væru til umræðu og er einmitt raðað þannig upp í vikuplaninu, auk þess sem auglýst og kynnt dagskrá hefur legið fyrir með þessum hætti. Ég sé ekki ástæðu til að breyta því. Öll þessi mál þurfa að fá framgang á þinginu og þó svo að núna hafi verið tilkynning um að menn ætluðu að ræða eitt mál öðru fremur mjög lengi sé ég ekki ástæðu til að fara að breyta röðinni á þessari stundu. Ég tek undir með forseta að dagskráin er svona og rétt að ræða málin í þessari röð.