132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki kynnt sér þetta mál alveg nægilega vel til að taka þátt hér í umræðu. Þetta mál er því algerlega óviðkomandi hvort fyrir liggja beiðnir í iðnaðarráðuneytinu í sambandi við rannsóknarleyfi. Við erum að fjalla um rannsóknarleyfi. Þetta er lagt til til þess að setja lög í landinu sem varða það hvernig eigi að halda á málum í sambandi við vatnsaflsvirkjanir til framtíðar þar sem núna ríkir ekki lengur sú staða sem var þar til raforkulögin voru samþykkt, þ.e. að Landsvirkjun hafði í raun einokun í sambandi við virkjunarframkvæmdir í vatnsafli. (Gripið fram í.) Nú eru breyttir tímar og nú þurfum við að taka tillit til þess og setja lög í landinu þannig að lífið geti haldið áfram. Það er nefnilega eins og hv. þingmenn Vinstri grænna hræðist öll ný frumvörp sem koma fram á hv. Alþingi. Svo er verið að tala um að eitthvert óðagot sé á iðnaðarráðherranum við að leggja fram frumvarp í þessu skyni. Það er náttúrlega bara út í hött. Það hefði átt að vera búið að taka þetta fyrr á dagskrá og forseti lagði sig fram um það. En það tókst ekki fyrir helgina þar sem hv. þingmenn virtust ekki treysta sér til að taka hér kvöldfund.