132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason beindi fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um hvað lægi á og ekki var að heyra að hæstv. ráðherra vildi svara þessu beint út. Ég held að ég verði að svara fyrir hana. Það sem liggur á er einmitt að til umræðu voru þrjú ný álver. Það eru tvö í byggingu. Því virðist liggja mikið á. Það liggur mjög mikið á í Framsóknarflokknum. Þessu máli er kippt fyrst á dagskrá og það er greinilegt að þetta er algert forgangsverkefni. Ég er á því að það verði að ræða hvað liggi á.

Hæstv. ráðherra segir að verið sé að laga eitthvert óvissuástand. Hvaða óvissuástand er verið að ræða? Það er einhver samkeppni fyrirtækja á raforkumarkaði? Hvaða fyrirtæki eru þetta? Þetta eru fyrirtæki í opinberri eigu. Þetta eru fyrirtæki sem eru í eigu Reykjavíkurborgar annars vegar og ríkisins þannig að það er ekki eins og hæstv. ráðherra ráði ekki neinu. Hún er með sína menn í stjórnum þessara fyrirtækja. Ég sé því ekki að þetta mál eigi að vera í forgangi. Ég hefði talið skipta meginmáli fyrir fólkið í landinu sem borgar rafmagnsreikningana að fá skýringar á því hvers vegna reikningarnir hafa hækkað svo. Mig langar þess vegna að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort við ættum ekki einmitt að ræða þau mál áður en við ræðum þessi mál um einhverja samkeppni opinberra fyrirtækja sem ráðherra hefur í hendi sér hvað gera.