132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að rifja upp hvernig þessi mál stóðu í fyrravetur. Það var auðvitað þannig, og flest af því kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að hér voru á ferðinni frumvörp, annars vegar um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og hins vegar frumvarp til vatnalaga. Þá lá líka fyrir að frumvarp um vatnsvernd lægi í drögum hjá umhverfisráðuneytinu. Þessi mál öll eru auðvitað hluti af því að taka vatnalagabálkinn til endurskoðunar. Gagnrýnin á meðferð þessara mála er ekki síst sú að menn skuli ekki hafa unnið heildstætt að þeim þannig að hægt væri að gera sér grein fyrir öllum breytingum sem ættu að gerast og stefnumörkunin væri þá í heilu lagi.

Frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum var ekki nógu vel unnið. Það komu gríðarlega margar athugasemdir við það og iðnaðarnefnd fór yfir þær. Það var samt svo að alveg fram á síðustu daga þingsins var því statt og stöðugt haldið fram að það mál skyldi í gegnum þingið. Okkur sem í nefndinni vorum þótti ekki vel að málum staðið þarna og töldum ómaksins vert að reyna að koma í veg fyrir að mál sem svo illa væri á vegi statt yrði gert að lögum. Það er rétt, það var niðurstaðan að ég tók þátt í því í iðnaðarnefnd, og við samfylkingarmenn, að afgreiða frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það var gert sem sáttaleið til þess að losna undan því að málið sem ég nefndi fyrr færi í gegn. Það var ekki svo að við værum ánægð með það sem stóð í þessu frumvarpi og að það uppfyllti vonir okkar um endurskoðun á þessum lögum, því að áhersla okkar í þessum málum hefur t.d. alltaf verið sú að gengið yrði frá því með skýrum hætti hvernig velja ætti á milli aðila til að nýta auðlindir. Ég verð að segja alveg eins og er að meðan ekki liggja fyrir almennilegar niðurstöður um það get ég ekki verið ánægður með stöðu þessara mála. Það er gjörsamlega fráleitt að ákveðið sé með einhvers konar handstýrðum hætti hverjir fái að nýta auðlindir á Íslandi. Það er gjörsamlega óviðunandi.

Ég botna ekkert í stjórnarliðum að þeir skuli ekki hafa meiri metnað hvað þetta varðar en fram kemur ítrekað í lagasetningu á þeirra vegum á undanförnum árum. Auðvitað átti að vinna þessi mál þannig að niðurstaða fengist í þau, niðurstaða sem gæti síðan harmónerað við það að setja auðlindir af þessu tagi inn í stjórnarskrána sem sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Um slíkar auðlindir hlýtur að þurfa að gilda að þar séu almennar reglur þar sem jafnræðis verður gætt gagnvart þeim sem nýta þær og þær geti ótvírætt verið þess vegna áfram í eigu þjóðarinnar um aldur og ævi. Það er auðvitað ekki niðurstaðan ef menn gefa út einhver rannsóknarleyfi sem síðan leiða af sér leyfi á leyfi ofan þar til menn hafa nýtingarleyfi um aldur og eilífð. Þannig er málum háttað hvað varðar nýtingu á jarðhita á Íslandi. Ég segi þess vegna að það sé spurning hversu langt sé hægt ganga í því að standa með stjórnarliðum í þessu máli. Við gerðum það í fyrra vegna þess að við mátum stöðuna svo að ef við gerðum það ekki færi málið í heild í gegn eins og það var lagt fyrir, þ.e. um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

Ég vildi segja þetta fyrst en mig langar líka til að ræða málið aðeins í framhaldi af þeim umræðum sem fóru fram hér um álver og stóriðju á Íslandi. Að mínu viti er það svo að iðnaðarráðuneytið og stjórnvöld eru að undirbúa í fullri alvöru þau virkjunaráform og stóriðjuáform sem eru í gangi. Vilji þeirra hefur komið fram, annars vegar til þess að ná því fram að Ísland fái meiri undanþágu en það hefur hvað varðar mengun og hins vegar að innflutningur á mengunarkvóta til þess að framleiða ál á Íslandi verði líka til staðar. Mér finnst menn ekki mega hoppa fram hjá þeirri staðreynd að komið hefur fram hjá þeim sem hér ráða að þetta sé það sem menn vilji. Sú umræða hefur ekki verið tekin hvort Íslendingar séu sammála því að ef hægt væri að fá keyptan mengunarkvóta úti í heimi væri sjálfsagt að koma með hann hingað eða hvort eðlilegt sé að Íslendingar sækist eftir mengunarkvóta sem fengist með meiri undanþágu en nú þegar er til staðar.

Mér finnst það bera vott um að hægri höndin viti ekki alltaf hvað sú vinstri gjörir þegar rætt var um umhverfismat áætlana hér fyrir ekki löngu síðan. Í þeirri lagasetningu er ekki gert ráð fyrir neinni áætlun um stóriðju á Íslandi. Auðvitað ætti ekki síður að vera til einhvers konar áætlun um jafngríðarleg áform og þau sem innifalin eru í vilja ríkisstjórnarflokkanna til stóriðjuframkvæmda á Íslandi. Þau ættu nú aldeilis erindi inn í lagatexta af því tagi sem þar var ræddur en þau eru ekki þar.

Það er auðvitað til marks um að þarna eru misvísandi hlutir á ferðinni. Pólitísk niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna var sem sagt sú að mestu mengunarvandamálin sem fyrirfinnast í áætlunum á vegum stjórnvalda ættu ekki heima í því þingmáli sem þarna var til umræðu, enda er áætlunin ekki til. Er það kannski þannig að svoleiðis fari menn að með umhverfismat áætlana að til að sleppa fram hjá vandamálunum verði bara ekki gerð áætlun á viðkomandi sviði? En auðvitað ætti svo að vera og það er spurning hvort ekki ætti hreinlega að vera lögfest að einhver slík framtíðaráform væru sett í form áætlana og tækju þar með við þeim reglum sem menn setja annars um slíkar áætlanir.

Umræðan um þessi mál var töluvert mikil í fyrra og ég segi eins og er að vegna hennar ímyndaði ég mér að stjórnvöld tækju sig á og færu vel yfir málin. Niðurstaðan yrði síðan sú að reyna að vinna þau heildstætt og sjá til þess að menn gætu haft heildaryfirsýn yfir endurskoðunina á þeim lögum sem ég nefndi áðan og tengjast endurskoðuninni á vatnalögunum gömlu og við fengjum að sjá t.d. vatnsverndarfrumvarpið sem hefur verið marglofað. Ekki er hægt að fá neinar upplýsingar um hvar það mál er í raun og veru statt í dag eða hvenær er von á því. Hér eru menn aftur komnir með það mál sem strandaði í þinginu í vor. Það var kannski vanmat mitt og fleiri að standa að því að flytja það í nefndinni og við hefðum bara átt að treysta því að við gætum stöðvað málið í heilu lagi. Ég er svo sem ekkert viss um að við værum neitt betur sett hvað málið varðar núna þess vegna. Ég óttaðist það töluvert að menn stæðu við þau orð að láta frumvarpið til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum fara í gegnum þingið því að meiri hlutinn á hv. Alþingi hefur nú verið tilbúinn til að ganga undir stjórnvöldum með þeim hætti og maður reiknaði með því að sú yrði niðurstaðan. Ég tel að við þurfum að fá góða umfjöllun um þetta mál í nefndinni núna og úr því að það ekki fór í gegnum þingið í vor gefst betri tími til að skoða það nú.

Það vakti athygli mína og ég ætla ekki að gleyma að nefna það að hv. formaður nefndarinnar í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon taldi að rökin fyrir því að málið þyrfti að komast í gegn væru þau að heimamenn biðu eftir því að fá leyfi til að rannsaka þessi mál. Liggur það fyrir að heimamenn fái þetta leyfi? Sækjast ekki einhverjir aðrir eftir því líka? Hvernig ætlar ráðherrann að skera úr því? Er farið eftir heimilisföngum þegar menn eru að sækja um rannsóknarleyfi? Okkur var a.m.k. ekki gerð grein fyrir að svo væri, heldur ætti að líta á allt aðra hluti en sveitfesti manna eða fyrirtækja þegar verið væri að velja um það hverjir fengju að nýta rannsóknarleyfi. Ég held að hv. formaður nefndarinnar hafi farið svolítið fram úr sjálfum sér að láta sjá á það spil sem datt þarna niður á borðið hjá honum. Það bendir a.m.k. til þess að hann hafi upplýsingar um að heimamenn séu manna líklegastir til þess að fá þetta leyfi. Það væri svo sem eftir öðru að menn væru hér ákveðnir í því hvernig þeir ætluðu að ráðstafa þessum leyfum.

Hæstv. ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því að fá niðurstöðu í þessu máli sem er mjög mikilvægt, þ.e. að láta nefndina sem hún skipaði í framhaldi af þessu öllu saman þó svo að lagafrumvarpið væri ekki samþykkt, beita sér fyrir því hvort mögulegt væri að ná fram niðurstöðu í nefndinni þannig að málin kæmust hraðar áfram. Ég tel að nefndarmenn ættu að athuga með að fá að tala við þá sem vinna að þessum málum þannig að hægt sé að átta sig á því hvenær væri hægt að klára þau með tillögum frá þessari nefnd. Ég mælist til þess að það verði eitt af því sem nefndin geri, að ræða við þessa aðila um það hvernig málin eru stödd hjá þeim.

Reyndar ætla ég ekki að gefast upp við að halda því fram að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin eigi að sætta sig við að menn fái að klára þessi mál í heilu lagi og hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er til þess að gera það. Það verður ekki gert nema menn fái að halda utan um allar tillögur sem eiga að koma fram og þá nefni ég enn einu sinni frumvarpið um vatnsvernd sem er í smíðum í umhverfisráðuneytinu.

Ég er ekki sannfærður um það enn að einhverjir hlutir sem ættaðir eru úr vatnatilskipun Evrópusambandsins geti ekki haft áhrif á einhvern hluta af þeim lagasetningum sem menn hafa verið með hér í höndunum í tengslum við endurskoðunina á þessum lagabálki frá 1923.

Það er rétt að mikill áhugi, mikið offors er í því að ná þessum málum fram og skýringar á því hafa ekki komið fram með þeim hætti að það sé a.m.k. hægt að segja að hlutirnir hafi verið sagðir skýrt. Við þingmenn höfum verið látnir um það að ráða í hvað rekur menn áfram. Skoðun mín er sú að það sem reki menn áfram sé að orkufyrirtækin í landinu, stjórnvöld í landinu vilji sjá til þess að orkufyrirtækin verði í stakk búin til að ganga frá samningum um afhendingu raforku sem allra fyrst til þess að stóriðjuáformin fái staðist. Það er ekkert sem liggur á borðinu um að stóriðjufyrirtæki geti fengið að vita með vissu hvenær raforka verður til afhendingar í öll þessi álver.

Ég ætla að gera kröfu um það og tel að ástæða sé til að gera þá kröfu að stjórnvöld komi fram á sjónarsviðið og segi nákvæmlega hvað menn ætla sér. Ef ætlunin er að flytja inn mengunarkvóta þá er eins gott að menn fari að ræða það mál hér á landi. Ef svo er ætlunin að berjast fyrir viðbótarkvóta, viðbót við undanþáguna, er líka ástæða til að menn segi frá því hvað þeir eru að meina. Það þarf að komast á hreint hvaða mengunarský það eru sem stjórnvöld hér á landi eru tilbúin að senda upp í loftið. Það liggur ekkert fyrir. Það liggur hins vegar fyrir að verið er að ræða í fúlustu alvöru við fyrirtæki sem ekki geta farið í þá starfsemi sem um er rætt öðruvísi en að mengunarkvótinn sem er hér til staðar verði stækkaður æðimikið.

Hér á Alþingi þurfa menn auðvitað að vera hreinskilnir við þjóðina um þetta. Ég ætla ekki að fullyrða um niðurstöðu af þeim umræðum sem verða um það mál en það er a.m.k. ekki upp á það bjóðandi að hún fari ekki fram. Það er ekki hægt að bjóða upp á það að ekki sé til einhvers konar stefna og helst ætti hún að heita áætlun í dag þannig að menn geti þá meðhöndlað hana með svipuðum hætti og menn vilja meðhöndla aðra hluti í tengslum við áætlanir. Menn tala um áætlanir vegna samgönguáætlana o.s.frv. Það er ekki síður ástæða til að til sé áætlun um þessi stóriðjuáform.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta núna. Við förum yfir þetta í nefndinni og ég endurtek: Ég ætla ekki að missa þá von að menn komist til vits með þeim hætti að hægt verði að taka á þessum málum heildstætt og með þeirri yfirsýn sem er Alþingi samboðin. Það er ekki samboðið Alþingi að endurskoða svo mikilvægan þátt sem hefur verið í lögum á Íslandi, sem eru vatnalögin frá 1923, öðruvísi en að gengið sé frá málinu í heild.