132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:09]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef túlkað stefnu flokkanna sem vilja kenna sig við miðjuna í dag, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, þannig að við styðjum skynsamlega nýtingu á náttúruauðlindum þjóðarinnar með skynsömum hætti. Það er alveg ljóst að við förum ekkert í slíka skynsamlega nýtingu ef við rannsökum ekki auðlindirnar. Það verður ekkert vit í því að gefa virkjunarleyfi ef menn hafa ekki rannsakað auðlindirnar. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það.

Eins og hæstv. iðnaðarráðherra benti á áðan þá er nauðsynlegt að koma þessu frumvarpi í gegn, sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var flutningsmaður að á síðasta þingi, til þess að menn geti hafið þessar rannsóknir. Því er nauðsynlegt að við komum þessu máli í gegn.