132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Inngrip inn í lítil samfélög, sagði hv. þingmaður. Hún er þá þeirrar skoðunar að samfélagið á Miðausturlandi hafi átt að vera áfram lítið. Ég skil það þannig að hún sé á móti þessari uppbyggingu, fjölgun fólks. Það er með ólíkindum að heyra íbúa á Miðausturlandi tala með þessum hætti þar sem fólkið sem þarna býr — þar sem ég þekki til alla vega — er yfir sig ánægt með það sem er að gerast.

Hv. þingmaður spurði um kostnaðinn, hvað það væri sem væri endurgreitt í þeim tilfellum þegar sá aðili sem rannsakar fær ekki endanlegt virkjunarleyfi. Það er raunhæfur kostnaður sem snertir virkjunina sem endanlega verður byggð. Það er sem sagt ekki hægt að krefjast þess að það sé endurgreitt eitthvað sem nýtist ekki þegar til þess kemur að virkjunin sjálf verður reist.

Ég langar til að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns, sem mér fyndist að væri maður að meiri ef hún viðurkenndi að þessi uppbygging er jákvæð fyrir Austurland frekar en að koma með þessar skýringar sem að mínu mati eru fátæklegar.