132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:41]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er annað hægt en að brosa að þessum málflutningi hv. þingmanns þegar hann talar um trúverðugleika hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra því hann tók til máls um frumvarp sem hann var meðflutningsmaður að á síðasta löggjafarþingi. Fyrir örfáum mánuðum var hv. þingmaður meðflutningsmaður að því frumvarpi sem við erum að ræða. Það hefur ekkert breyst á milli þinga og hér kemur hv. þingmaður upp og segir: Hvað liggur á? Halló. Hv. þingmaður var flutningsmaður að málinu. Hvað er í gangi hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins? Eru hv. þingmenn ekki hlynntir skynsamlegri nýtingu á náttúruauðlindum landsins? Hv. þingmaður endaði á því áðan að tala um skynsamlega nýtingu. Þurfum við þá ekki að fara í rannsóknir á þeim auðlindum til að vita hvað er skynsamlegt í þeim efnum? Hvers lags málflutningur hefur farið fram í dag?

Og enn og aftur koma hv. stjórnarandstæðingar hér upp og tala um að fara eigi í þrjú eða fjögur álver á næstu 5–7 eða tíu árum. (ÞBack: Það er búið að lofa því.) Þetta er fáránlegur málflutningur. Það hefur ekki verið skrifað undir neitt í þeim efnum að farið verði í slíkar framkvæmdir. Ég sé að hv. þm. Þuríður Backman hlær. (ÞBack: Það er búið að lofa þessu.) Og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er vafalaust ekki lítið skemmt. Þetta eru þeir þingmenn sem hafa talað hvað mest gegn framkvæmdum til að mynda í eigin kjördæmi á Miðausturlandi. Menn vilja kannski horfa til framtíðar á Norðurlandi. Það hefur ekkert verið tímasett í þessum efnum en ég lofa Norðlendingum því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu berjast með oddi og egg gegn uppbyggingu atvinnutækifæra á Norðurlandi. (JBjarn: Það er rangt.) (ÞBack: Um hvað ertu að tala?) (Gripið fram í: Gegn virkjunarframkvæmdum.)