132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög jákvætt þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson getur gert að gamni sínu og brosað. Ég sagði í umræðunni að í sjálfu sér væri þetta frumvarp ekki óskynsamlegt. En ég spurði hæstv. ráðherra hvað lægi á vegna þess að þegar þetta frumvarp var til umræðu eða fór frá nefndinni var það meðal annars til að bjarga vondu frumvarpi sem kom frá ráðherra.

En einnig lá ljóst fyrir þegar það frumvarp var til umræðu í nefndinni að binda þyrfti lausa enda. En síðan kemur þetta frumvarp óbreytt og ekki er búið að ganga frá þeim endum sem voru lausir. Ég tel að það ætti að vera ákveðið áhyggjuefni. Hvað liggur á? Hvers vegna er ekki búið að binda þá hnúta sem voru lausir?

Í sjálfu sér væri fróðlegt að fá skýringar frá hv. þingmanni vegna þess að hann hefur mikið minnst á heimamenn en ekki aðkomumenn enn varðandi þetta frumvarp. Ég átta mig í rauninni ekki á því hvað heimamenn og jafnvel aðkomumenn koma þessu frumvarpi við. Þetta snýst um rannsóknarleyfi, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og ég vona að menn fari að átta sig á því í umræðunni og skynsamleg umræða verði um nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.