132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:45]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður virðast orðaskipti mín og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar áðan hafa farið fram hjá þingmanninum. Það er allt gott um það að segja, en þar ræddum við mikið um þennan þátt heimamanna. Ég sagði í andsvari fyrr í dag að mikill áhugi væri hjá heimamönnum, m.a. í Skagafirði og í Þingeyjarsýslum, á því að farið verði út í rannsóknir á auðlindum sem eru í þeim héruðum. Ég hef ekki úthlutað neinum rannsóknarleyfum hvað það varðar og alveg ljóst að aðilar víða um land munu sækja um slík leyfi.

Hv. þingmaður segir: Hvað liggur hér á? Það er mikilvægt að við komum þessari lagabreytingu í gegn svo að menn geti sótt um rannsóknarleyfi og farið í rannsóknir. Það þarf rannsóknir til þess að kveða á um framtíðarnýtingu á auðlindum þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Ég fagna því náttúrlega ef hv. þm. Sigurjón Þórðarson er ekki á móti því frumvarpi sem hann var meðflutningsmaður að fyrir örfáum mánuðum. Ég skildi orð hans hér þannig að hann mundi standa að þessu. Flýtirinn er ekki meiri en svo á málinu að við frestuðum því á síðasta löggjafarþingi. Hv. þingmaður var meðflutningsmaður að málinu. Hann hefur væntanlega viljað fá málið í gegn á síðasta löggjafarþingi. Asinn er því ekki meiri en svo að við ætlum að koma þessu máli í gegn á þessu þingi ef meiri hluti er fyrir því á hinu háa Alþingi.

Ég hef lýst yfir stuðningi mínum við þetta mál. Hér er um framfaraspor að ræða og alveg merkilegt að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar í dag hvað það varðar að menn vilji horfa til framtíðarnýtingar á þessum auðlindum og rannsaka þær. Það er sjálfsagt mál að menn rannsaki þessar auðlindir til þess að vita hvort hagkvæmt sé, hvort eitthvert vit er í, að fara í einhverjar framkvæmdir í framhaldi af því. Við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður.