132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Umrædd skoðanaskipti fóru ekki fram hjá mér, en ég verð að segja eins og er að ég varð engu nær um hvað heimamenn og jafnvel aðkomumenn koma þessu máli við. Ég á von á því að hv. þingmaður og formaður allsherjarnefndar skýri það út fyrir okkur seinna í umræðunni. Ég studdi frumvarpið í trausti þess að umrædd nefnd, sem átti að vera skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, yrði skipuð. Það hefur ekki verið gert.

Ég kom einnig inn á það í ræðu minni áðan að traust mitt á hæstv. iðnaðarráðherra fer sífellt þverrandi. Ég er ekki einn um það. Ég finn það á fólki á landsbyggðinni, jafnvel á fólki sem hefur stutt Framsóknarflokkinn til margra ára og fær háa raforkureikninga frá flokknum, að því er ekki sama. En mér finnst algjör vitleysa að blanda heimaaðilum í Skagafirði inn í þetta mál.

Ég vona að hv. þingmaður hafi hlýtt á ræðu mína þar sem ég kom inn á að yfir 90% af allri orku sem er framleidd í Blönduvirkjun er flutt af svæðinu og ekki notuð á Norðurlandi vestra. Eins og staðan er í Skagafirði er því nægileg orka fyrir iðjuver á borð við steinullarverksmiðjuna og nokkrar slíkar, það er hægt að stinga þeim í samband. Það er óþarfi að blanda atvinnuuppbyggingu í Skagafirði inn í þetta mál.