132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:04]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti miður sú geðillska sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan á þessum fallega degi. Hv. þingmaður talaði mikið til okkar framsóknarmanna í ræðu sinni, nefndi Framsóknarflokkinn nokkuð oft á nafn og talaði um að það sem sumum þættu framfarir væri afturför í augum annarra.

Það er rétt að okkur hv. þingmann greinir á í mörgum málum. En þá skulum við fá á hreint hvað hv. þingmanni finnst um þær framfarir sem við framsóknarmenn teljum einkenna Miðausturland nú. Er þar um afturför að ræða? Þar geislar fólk af bjartsýni. Þar er uppbygging í gangi.

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hv. þingmann að við erum að ræða um rannsóknarleyfi, um að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi. Ábyrgir stjórnmálaflokkar sem vilja skynsamlega nýtingu á náttúrauðlindum landsins hljóta að vera samþykkir því að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi til þess að komast að því hvað sé skynsamlegt í þessum efnum. Á ekki að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi til þess að rannsaka nýtingarmöguleika á auðlindum? Hvernig getum við annars komist að niðurstöðu um hvað sé skynsamlegt og hvað sé óskynsamlegt í þessum efnum? Hv. þingmaður talaði mjög mikið um að Framsóknarflokkurinn væri ómálefnalegasti flokkur landsins. Hann verður svo sem að fá hafa þá skoðun. Það er stefna okkar framsóknarmanna að fara skynsamlega með náttúruauðlindir þjóðarinnar. En þá verða menn að fara í rannsóknir og við erum að reyna að heimila aðilum hér á landi að fara í rannsóknir á þessum auðlindum. En vinstri grænir eru á móti því eins og svo mörgu öðru.

Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér atvinnuástand t.d. á Norðausturlandi. Ég hef ekki orðið var við að hv. þingmaður kæmi með neinar lausnir eða tillögur í þeim efnum. Hann gagnrýnir bara og er bara á móti.