132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sömuleiðis kærar þakkir til hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Það er ákaflega notalegt þegar maður hefur haldið fram sjónarmiði og svo koma ræðumenn í pontu í kjölfarið og sanna það sem maður var að segja. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gaf sjálfum sér og málflutningi sínum alveg prýðiseinkunn með þessari snjöllu ræðu, (BJJ: Takk fyrir.) jafnmálefnaleg (Gripið fram í.) og rausnarleg og hún var.

Já, það er nú kannski þannig, eins og hv. þingmaður hafði eftir mér, að það sem einn telur vera framþróun eða til framfara horfa það telur annar kannski ekki. Ég tel það ekki framþróun að ryðja í burtu úr íslensku atvinnulífi hátækni- og þekkingarfyrirtækjunum, hrekja þau úr landi. Ég tel það ekki framþróun að um 500 manns hafa misst atvinnu sína í fiskvinnslu í landinu á einu ári og það rakið beint til gengis krónunnar og óhagstæðra skilyrða sem stóriðjuframkvæmdirnar settu af stað ef marka má t.d. sérfræðinga Seðlabankans. Ég tel það vera afturför. Ég tel að ekki sé hverju sem er fórnandi í hinu almenna íslenska atvinnulífi til þess að stóriðjustefna Framsóknarflokksins geti haldið óheft áfram.

Svo er það uppbyggingin á Miðausturlandi. Hvernig getur hv. þingmaður haldið þessu fram, spyr þingmaðurinn, í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem er á Miðausturlandi? Hverjum datt annað í hug og hvenær var því mótmælt að auðvitað mundu þessar miklu framkvæmdir hafa mikil svæðisbundin áhrif? Aldrei. Það var ítarlega rætt hér í þingsölum. En hópur þingmanna var þeirrar skoðunar að það væri ekki nægjanlegt til þess að réttlæta hina neikvæðu þætti sem málinu fylgdu, þ.e. hin miklu óafturkræfu umhverfisspjöll og neikvæð efnahagsáhrif og fleira í þessum dúr. Um þetta snýst málið. Þessi er hinn málefnalegi ágreiningur ef menn geta fallist á að ræða það (Forseti hringir.) á þeim nótum. En það getur (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn greinilega ekki og það verður að vera hans vandi.