132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[17:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum er varða réttindi samkynhneigðra. Megintilgangur frumvarpsins er að afnema þá mismunun í garð samkynhneigðra sem enn finnst í lögum. Frumvarpið er afrakstur starfs nefndar sem forsætisráðherra skipaði og var skýrsla hennar um réttarstöðu samkynhneigðra lögð fram á Alþingi fyrir réttu ári síðan. Í kjölfarið samþykkti ríkisstjórnin á fundi 16. ágúst síðastliðinn að hrinda í framkvæmd öllum helstu umbótatillögum nefndarinnar, jafnvel þeim sem ekki varð full samstaða um í nefndinni. Síðan hefur forsætisráðuneytið í samvinnu við viðkomandi fagráðuneyti unnið að því að færa samþykkt ríkisstjórnarinnar í frumvarpsbúning.

Leiðarljósið í þessu starfi hefur verið að ekki ætti að viðhalda mismunun á þessu sviði nema sérstök rök mæltu með því. Við ítarlega skoðun málsins hafa slík rök ekki fundist. Ekkert bendir t.d. til þess að samkynhneigðir séu lakari uppalendur en gagnkynhneigðir. Ekkert bendir til þess að börn líði fyrir að alast upp hjá tveimur foreldrum af sama kyni. Það sem mestu máli skiptir er að börnum séu búin þroskavænleg og kærleiksrík uppvaxtarskilyrði og um það eru samkynhneigðir alveg jafnfærir og gagnkynhneigðir. Með því að viðurkenna að lögum fullan rétt samkynhneigðra til fjölskylduþátttöku er ríkisstjórnin í reynd að uppfylla þá skyldu sína að hrinda jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar í framkvæmd og um leið vill hún leggja sitt af mörkum til að eyða fordómum í samfélaginu. Meginatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

1. Tekið verður af skarið um að samkynhneigð pör geti fengið sambúð skráða í þjóðskrá. Þar með eru skapaðar forsendur fyrir því að samkynhneigðir einstaklingar hafi sama valkost og gagnkynhneigðir, þ.e. að stofna til sambúðarforms sem gengur skemmra en hjúskapur eða staðfest samvist. Jafnframt þýðir þetta að réttur til lífeyris almannatrygginga, skattalegrar meðferðar tekna og eigna, félagsþjónustu og fleira verður sá sami, óháður kynhneigð.

2. Samkynhneigðum pörum verður heimilað að frumættleiða börn bæði innan lands og erlendis frá líkt og gildir um gagnkynhneigð pör.

3. Lesbískum pörum verður veittur réttur til að gangast undir tæknifrjóvgun hér á landi en samkvæmt núgildandi lögum hafa einungis hjón eða karl og kona í óvígðri sambúð þennan rétt.

Ég vil leyfa mér að víkja nánar að fyrsta atriðinu sem varðar óvígða sambúð. Veigamikill þáttur frumvarpsins felst í því að breyta lagaákvæðum á ýmsum sviðum þar sem óvígðrar sambúðar er getið þannig að ljóst sé að hún geti tekið til sambúðar tveggja einstaklinga af sama kyni. Þá er einnig eftir föngum reynt að samræma skilgreiningu á því hvað átt sé við með óvígðri sambúð en ýmsar útgáfur er nú að finna á því í lögum. Í frumvarpinu er stuðst við skilgreiningu sem algeng er í nýlegri löggjöf á þessu sviði. Með frumvarpinu er þannig lagt til að undantekningarlaust sé um að ræða skráða sambúð í þjóðskrá og auk þess verður að vera komin ákveðin festa á sambandið. Sú festa getur birst annaðhvort í því að viðkomandi eigi barn saman eða von á barni saman eða þá að sambúðin hafi varað í tiltekinn lágmarkstíma. Það er mikilvægt að þessi skilyrði séu sem skýrust vegna þess að ýmis réttindi eru bundin við óvígða sambúð eins og fyrr var getið.

Eins og áður segir verður það gert að almennu skilyrði að óvígð sambúð verði skráð í þjóðskrá. Lagt er til að tekin verði upp bein heimild í lögheimilislög til slíkrar skráningar en nú er sú framkvæmd ólögfest. Í breytingarákvæði við lögheimilislögin kemur fram að par sem vill fá sambúð skráða verður að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði, þ.e. um sameiginlegt lögheimili, að parið sé í samvistum og að skilyrði hjúskaparlaga samanber laga um staðfesta samvist séu uppfyllt eftir því sem við á. Er þá vísað til þess að aldur, skyldleiki eða fyrri hjúskapur eða staðfest samvist tálmi ekki skráningu.

Þá verður tekið skýrt fram að upphafstími hinnar skráðu sambúðar miðist við þann dag er beiðni um skráningu berst þjóðskrá. Með þessum breytingum mun skapast meiri festa varðandi skráningu óvígðrar sambúðar auk þess sem lagagrundvöllurinn verður skýrari og er það í samræmi við ábendingar starfsmanna þjóðskrár. Verði frumvarpið að lögum er mikilvægt að kynna þessi atriði fyrir öllum almenningi. Leggja þarf áherslu á að til þess að tryggja að óvígð sambúð sé viðurkennd að lögum hvort sem samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir eiga í hlut þurfi fólk að muna eftir því að senda tilkynningu til þjóðskrár. Ætla má að flestir geri sér nú þegar grein fyrir þeim möguleika að fá sambúð skráða í þjóðskrá en verði frumvarpið að lögum eru enn ríkari ástæður en fyrr til að sinna skráningunni.

Rétt er að geta þess að Hagstofan hefur að undanförnu undirbúið þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til. Skráning sambúðar samkynhneigðra kallar á breytingu á grunnforritum Hagstofunnar og er kostnaður af hennar hálfu áætlaður 1–1,5 millj. kr. Er gert ráð fyrir að sá kostnaður falli til á þessu ári þannig að þjóðskrá sé ekkert að vanbúnaði þegar lögin ganga í gildi. Að öðru leyti liggur kostnaðarmat ekki fyrir eins og fram kemur í umsögn Fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það helgast af því hversu erfitt er að leggja mat á hversu nákvæmlega útgjöldin verða t.d. vegna tæknifrjóvgana, fæðingarorlofs o.s.frv.

Með frumvarpinu er lagt til að samkynhneigð pör öðlist sama lagalegan rétt til ættleiðinga og gagnkynhneigð pör. Með lagabreytingum sem gerðar voru árið 2000 var samkynhneigðum heimilað að stjúpættleiða barn maka síns en samkvæmt frumvarpinu er gengið mun lengra. Samkynhneigðir munu öðlast sama rétt og gagnkynhneigðir til ættleiðingar. Skilyrði ættleiðingar verður samkvæmt því að viðkomandi séu í hjónabandi, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð sem varað hefur í a.m.k. 5 ár. Rétt er að minna á að ættleiðingarferlið er langt og hvað varðar ættleiðingar erlendis frá þá stöndum við frammi fyrir því að þau lönd sem ættleidd börn hafa yfirleitt komið frá til Íslands heimila ekki ættleiðingar til samkynhneigðra. Það þykir samt ekki gild ástæða fyrir því að hafa mismunun í lögum hér á landi. Má geta þess að Svíar hafa komist að sömu niðurstöðu og er ekki að sjá að það hafi haft neikvæð áhrif á möguleika gagnkynhneigðra til að fá börn ættleidd erlendis frá. Frumvarpið breytir í engu málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins þegar sótt er um ættleiðingu. Áfram verður því metið hverju sinni út frá hagsmunum barnsins hvort ættleiðing er heimiluð.

Hvað varðar tæknifrjóvganir er lagt til að konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu sem varað hefur í a.m.k. þrjú ár verði heimilað að gangast undir tæknifrjóvgun. Eru það sömu skilyrði og gilda um gagnkynhneigð pör.

Þá eru lagðar til breytingar á barnalögum sem miða að því að ákveða réttarstöðu makans í þessu tilfelli. Er lagt til að viðkomandi verði skilgreindur sem foreldri barnsins með öll sömu réttindi og skyldur gagnvart barninu eins og hin eiginlega móðir.

Lög um tæknifrjóvgun gera nú þegar ráð fyrir því að þegar par sækir um slíka aðstoð þá sé hún ekki veitt nema að undangenginni rannsókn á högum þess. Slíkar reglur munu auðvitað áfram verða við lýði og leggja verður áherslu á að hagsmunir hins ófædda barns séu hafðir í fyrirrúmi. Þannig verður slíkt leyfi ekki veitt ef ástæða er til að ætla að viðkomandi par sé ekki fært um að tryggja barninu góð uppvaxtarskilyrði.

Núgildandi lög um tæknifrjóvgun heimila nafnlausa sæðisgjöf. Það gerir það að verkum að þegar barnið vex úr grasi er engin leið fyrir það að komast að því hver hinn raunverulegi faðir er. Ekki er lögð til nein breyting á þessu fyrirkomulagi en vissulega vekur það ýmsar grundvallarspurningar eins og um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Það er athyglisvert að í Svíþjóð þar sem lesbíum var heimilað fyrr á þessu ári að gangast undir tæknifrjóvgun er nafnlaus sæðisgjöf ekki leyfð. Það virðist samt ekki hafa komið í veg fyrir að nægilegt framboð sé á gjafasæði til para sem á þurfa að halda til að vinna bug á barnleysi sínu.

Ég mundi vilja, hæstv. forseti, hvetja til þess að þessi mál séu tekin til skoðunar hér á landi í framhaldi af þeirri lagasetningu sem við nú stöndum frammi fyrir.

Frú forseti. Ég veit að rík þverpólitísk samstaða er um þetta mál og verði frumvarpið að lögum getum við Íslendingar sagt að við skipum okkur í fremstu röð þjóða við að útrýma fordómum og misrétti sem samkynhneigðir hafa löngum orðið að þola. Verði frumvarpið að lögum verður ekki lengur neinn munur á réttaráhrifum staðfestrar samvistar og hjónabands. Hins vegar munu enn gilda mismunandi reglur um stofnun þessara tveggja sambúðarforma. Þótt skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar verði rýmkuð þá verður áfram gerð krafa um að a.m.k. annar einstaklingurinn sé íslenskur ríkisborgari eða frá landi þar sem staðfest samvist eða hjúskapur samkynhneigðra er leyfður. Samkvæmt núgildandi lögum fer staðfest samvist fram frammi fyrir sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra. Hins vegar er ekki heimild fyrir presta eða forstöðumenn skráðra trúfélaga að framkvæma staðfesta samvist, ólíkt því sem gildir um hjónavígslu. Ekki er lögð til breyting á þessu.

Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra fjallaði sérstaklega um þetta atriði. Í skýrslu hennar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess að vinna að því að ná samstöðu um að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör. Slík afstöðubreyting er að mati nefndarinnar forsenda þess að unnt verði að fella niður það skilyrði laganna um staðfesta samvist að hún geti aðeins stofnast með borgaralegri vígslu. Nefndin hvetur til þess að við endurskoðun á fjölskyldustefnu þjóðkirkjunnar sem nú stendur yfir og í starfshópi innan kirkjunnar um málefni samkynhneigðra verði þetta mál skoðað ítarlega samhliða aukinni umræðu og fræðslu um málefni samkynhneigðra innan kirkjunnar.“

Ekkert hefur í sjálfu sér breyst síðan nefndin komst að þessari samhljóða niðurstöðu. Það er mín afstaða að varhugavert sé að setja í lög heimildarákvæði um kirkjulegar vígslur sambands samkynhneigðra án þess að vilji standi til þess í þjóðkirkjunni. Þar með væri í raun verið að stilla henni upp við vegg og slíkt teldi ég ekki við hæfi í samskiptum ríkis og kirkju. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir að við þinglega meðferð frumvarpsins verði þessi atriði skoðuð nánar og kallað eftir afstöðu allra hlutaðeigandi og við það muni málið skýrast.

Ég vil svo að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, leggja til að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.