132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[17:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það þarf kannski ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég tek heils hugar undir með hæstv. forsætisráðherra og háttvirtum síðasta ræðumanni. Það er tilefni til að fagna því að þetta mál skuli fram komið og að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að ganga svo langt sem raun ber vitni í að leiðrétta þá mismunun sem samkynhneigðir hafa þurft að búa við í samfélagi okkar hingað til. Ég fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin skuli ganga svo langt sem raun ber vitni, þrátt fyrir það að nefndin sem fjallaði um málið skyldi ekki hafa náð sameiginlegri niðurstöðu í öllum meginatriðum.

Með lögunum um staðfesta samvist frá 1996 steig íslenska ríkisstjórnin verulega stórt skref. Það vakti athygli, jafnvel út fyrir landsteinana. Það var í sjálfu sér athyglisvert á þeim tíma af því að ríkisstjórnin gekk í raun framar almenningsálitinu. Skrefið, að leyfa staðfesta samvist, var stigið áður en þrýstingurinn í samfélaginu var orðinn það mikill að ríkisstjórnin þyrfti að láta undan. Ég verð að segja að ég var, fyrir hönd okkar allra og þjóðarinnar allrar, mjög stolt af ríkisstjórninni sem gerði þá breytingu árið 1996. Mér fannst það virkilega flott skref, virðulegi forseti.

Mér finnst skrefið sem nú er stigið jafnflott þannig að hjarta mitt fagnar jafnmikið nú og ég fagnaði 1996. Ég tel að nú verðum við að klára málið. Þetta var aðdragandinn, breytingarnar árið 1996, og nú verðum við að fara með málið alla leið. Viðhorfið til samkynhneigðra hefur breyst mjög mikið á skömmum tíma. Ég held að lögin frá 1996 hafi átt stóran þátt í því. Ég held að það sé hárrétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að aðdragandi lagasetningarinnar og umræðan sem fór fram í kjölfarið hafi verið þess eðlis að allt í einu hafi verið hægt að tala um homma og lesbíur. Það hafði ekki verið hægt fram að því. Ríkisstjórnin steig þar mjög eftirminnilegt skref, stórt og mikið, í átt til jafnréttis og núna, eins og ég segi, erum við að klára málið. Það er vel.

Hvatning til þjóðkirkjunnar frá hæstv. forsætisráðherra varðandi málefni samkynhneigðra er auðvitað sjálfsögð. Við komum vitanlega til með að taka þann þátt málsins til skoðunar í allsherjarnefnd. Það er deginum ljósara að þjóðkirkjan og trúfélög verða að taka sig rækilega á í umræðunni inn á við, hver hjá sér. Það hlýtur að vera hægt að halda því fram með fullum rökum að í þjóðkirkjunni eigi öllum að standa til boða kærleiksboðskapurinn og kirkjuleg blessun eða vígsla, hvert svo sem sambúðarformið er, hvort sem fólk er samkynhneigt eða gagnkynhneigt.

Hæstv. forseti og hv. þingmenn. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að hér ætti að draga þjóðfána Íslands að húni en vitið þið, mér líður þannig núna að það ætti að flagga í þingsal. Þá ætti að flagga regnbogafánanum, fánanum marglita sem samkynhneigðir draga að húni fyrir sig og framtíðarland sitt, framtíðarland þar sem fjölbreytni er fagnað og allir fá notið sín, þar sem allt litróf mannlífsins fær notið sín til fullnustu. Mig langar bara að segja: Hipp-hipp húrra!