132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:00]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að það er ástæða til að fagna sérstaklega í dag. Við höfum hlýtt á hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson lýsa frumvarpi sem bætir mjög réttarstöðu samkynhneigðra. Segja má að í dag hafi unnist stórsigur í þeirri réttindabaráttu.

Í langan tíma hafa ríkt fordómar í garð samkynhneigðra en það er ljóst að orðið hefur geysilega mikilvæg jákvæð viðhorfsbreyting í þeirra garð hin seinni ár.

Fyrir stuttu, í ágúst síðastliðnum gafst mér tækifæri til að vera fulltrúi Framsóknarflokksins við sölu á vörum hjá Samtökunum ´78 fyrir Gay Pride-gönguna. Það er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef tekið að mér fyrir Framsóknarflokkinn. Í þeirri göngu sást hve öflugur hópur samkynhneigðir og aðstandendur þeirra, vinir og vandamenn, er. Hann á skilið að njóta sömu réttinda og aðrir í þessu samfélagi. Það er alveg ljóst að í nútímasamfélagi á að ríkja fullt jafnrétti milli fólks óháð kynhneigð þess. Það er brýnt að allri mismunun á grundvelli kynhneigðar verði útrýmt.

Varðandi stefnu Framsóknarflokksins í málefnum samkynhneigðra þá var samþykkt á síðasta flokksþingi okkar, í febrúar síðastliðnum, mjög skýr stefna. Hún er í V. kafla, um fjölskyldumál, en ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lýsa þeirri stefnu. Þar segir:

„Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að einstaklingum sé ekki mismunað eftir kynferði, kynhneigð, þjóðerni eða litarhætti.

Allir eiga að njóta sömu möguleika við ættleiðingu barna og leggur Framsóknarflokkurinn til að réttindi samkynhneigðra verði jöfnuð við réttindi gagnkynhneigðra. Framsóknarflokkurinn telur jafnframt brýnt að annarri mismunun á grundvelli kynhneigðar verði útrýmt.“

Í þessu sambandi vil ég líka benda á að Framsóknarflokkurinn er með svokallaða grundvallarstefnuskrá. Hún er leiðarljós okkar og ég vil, með leyfi forseta, vitna í hana einnig en í henni kemur fram:

„Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum ... Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.“

Af þessu er ljóst að Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur umburðarlyndur framfaraflokkur sem hefur mótað sér mjög skýra stefnu í málefnum samkynhneigðra.

Í framsögu hæstv. forsætisráðherra kom fram að ýmis framfaramál í frumvarpinu sem hér um ræðir voru þannig að ekki var samstaða um þau í nefndinni sem undirbjó málið. Nefndin skiptist í tvo hópa, tvo jafna hluta hvað varðar ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir. Það var því ekki samstaða um það. Þrátt fyrir niðurstöðu nefndarinnar hafa stjórnmálamenn, í aðdraganda þessa frumvarps, tekið afstöðu með samkynhneigðum. Í frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að samkynhneigðir geti ættleitt erlend börn og undirgengist tæknifrjóvganir. Sú afstaða var, eins og hér kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, tekin þar sem það þótti réttlætismál að gera breytingar. Farið var yfir niðurstöðu nefndarinnar á rökrænan hátt. Þetta varð niðurstaðan og ég fagna því sérstaklega.

Af þessu tilefni vil ég gera að umtalsefni hjúskaparlögin, sem ýmsir háttvirtir þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum. Í 1. gr. þeirra laga segir: „Lög þessi gilda um hjúskap karls og konu.“ Þannig er ljóst að eins og málum er háttað í dag er söfnuðum ekki heimilt að gefa samkynhneigða saman til hjúskapar. Virðulegi forseti. Ég sé ekki rök fyrir því að breyta lögum þannig að heimilt sé fyrir samkynhneigða að ættleiða t.d. erlend börn en ekki að ganga í hjúskap. Ég sé ekki rökrænt samhengi þar á milli þannig að ég hefði gjarnan viljað sjá að við tækjum þessi skref til fulls, þ.e. að við heimiluðum söfnuðum að gefa saman samkynhneigða til hjúskapar.

Það má segja að löggjafinn segi söfnuðum fyrir verkum vegna þess að sem stendur er bannað samkvæmt lögum að gefa saman samkynhneigða. Ég get ekki fallist á þau rök sem fram komu áðan í ræðu eins háttvirts þingmanns, að löggjafinn væri að segja kirkjunni fyrir verkum með því að gef slíkt svigrúm, opna heimild fyrir söfnuði til að gefa saman til hjúskapar tvo karlmenn eða tvær konur, þ.e. samkynhneigða. Ég tel eðlilegt að við klárum þessi mál.

Þegar svona mál koma til kasta þingsins eins og hér um ræðir — þetta er stórt frumvarp, 36 greinar — þá fara þau til nefndar, eru skoðuð þar, send til umsagnar og farið faglega yfir málið. Ég tel að hér gefist kjörið tækifæri til að ganga alla leið og klára þetta mál fyrir fullt og allt.

Virðulegi forseti. Ég tel mig trúaða manneskju og tel að kirkjan sé mjög mikilvæg stofnun í íslensku samfélagi. En ég tel líka að hún verði að þróast í takt við tímann. Ég tel ekki að óeðlilegur þrýstingur muni skapast á kirkjuna þótt löggjafinn aflétti því banni sem nú gildir við því að söfnuðir gefi saman samkynhneigt fólk til hjúskapar. Ég er skoðanasystir hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur að þessu leyti og tel eðlilegt að allsherjarnefnd skoði sérstaklega það atriði.

Eins og kom fram í upphafi er það stefna flokks míns og reyndar líka annarra flokka, ég hef skoðað stefnu annarra flokka varðandi stöðu samkynhneigðra og það er almennt þannig að bæði stjórnmálaflokkarnir og fjölmargir í samfélaginu eru þeirrar skoðunar, að útrýma eigi allri mismunun gagnvart kynhneigð fólks í samfélagi okkar. Það hefur orðið geysileg viðhorfsbreyting og nú er tækifæri til að taka það skref til fulls. Ég met það svo að við eigum að gera það. Það er ekki verið að þröngva neinu upp á söfnuði með því að heimila þeim — ég undirstrika, að heimila þeim — að gefa saman samkynhneigt fólk til hjúskapar. Þeim er ekki skipað að gera það. Þeir geta hafnað því og kosið að hafa fyrirkomulagið með sama hætti og er í dag. Það er þá þeirra mál. Þeir hafa sjálfstæði til þess en við eigum að veita þeim heimild til að aflétta þessu banni.