132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:08]
Hlusta

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram til umræðu. Það markar þáttaskil í jafnréttisbaráttunni þar sem réttindi samkynhneigðra verða tryggð og gengið er lengra en annars staðar þekkist enda höfum við heyrt, í ummælum hagsmunaaðila á síðustu dögum, að Ísland sé að verða eitt frjálslyndasta ríki heims og því ber að fagna.

Samkvæmt íslensku stjórnarskránni og fjölda mannréttindasáttmála hafa allir einstaklingar ákveðin grundvallarmannréttindi burt séð frá kynhneigð. Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í átt til aukinna réttinda samkynhneigðra á síðustu árum. Nefna mætti lög um staðfesta samvist, lög sem banna mismunun á grundvelli kynhneigðar og lög um stjúpættleiðingar samkynhneigðra. En þetta frumvarp gengur enn lengra og tryggir samkynhneigðum mikilvæg réttindi.

Það er sjálfsagt mannréttindamál að samkynhneigðir njóti sama réttar og gagnkynhneigðir á öllum sviðum þjóðfélagsins. Það er ánægjulegt að Ísland skipi sér í hóp þeirra ríkja sem tryggja best réttindi þegna sinna jafnt samkynhneigðra sem gagnkynhneigðra.

Það er líka ánægjulegt að sjá, í kjölfar þeirrar umræðu sem skapaðist um störf nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra, að hér sé gengið lengra en nefndin lagði til með því að heimila lesbíum í staðfestri samvist að gangast undir tæknifrjóvgun og heimila frumættleiðingar íslenskra og erlendra barna jafnt gagnkynhneigðum sem samkynhneigðum. Því miður leyfa fá þeirra ríkja, sem Íslendingar sækja kjörbörn til, ættleiðingar samkynhneigðra. En slíkir fordómar ættu ekki að hafa áhrif á lagasetningu okkar.

Með frumvarpi þessu gefa íslensk stjórnvöld gott fordæmi og má búast við því að eftir því sem fleiri ríki setja í lög að samkynhneigðir megi ættleiða börn frá öðru landi en sínu eigin aukist líkurnar á að slíkar ættleiðingar verði með tímanum taldar sjálfsagðar.

Eins og ég nefndi áðan hafa hagsmunaaðilar fagnað mjög tilkomu þessa frumvarps og þeim réttindum sem samkynhneigðum eru tryggð með því. Formaður Samtakanna ´78 sagði að með þessu frumvarpi hefði Ísland gengið lengst ríkja heims í að tryggja réttindi samkynhneigðra. Hagsmunaaðilar hafa reyndar komið með eina athugasemd þess efnis að heimila ætti í lögum prestum og forráðamönnum trúfélaga að gefa samkynhneigð pör saman. Með slíkri heimild væri það hverju trúfélagi í sjálfsvald sett hvort það nýtti þá heimild eða ekki.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Mér þykir eðlilegt að þingið skoði þessar athugasemdir mjög vel og sjálf mundi ég vilja sjá breytingu á frumvarpinu í þá átt. Það er ljóst að með frumvarpinu sendir ríkisstjórnin og í raun þingheimur allur skýr skilaboð til aðila í þjóðfélaginu um réttindi samkynhneigðra. Því er eðlilegt að trúfélög taki í kjölfarið afstöðu til þess hvort þau heimili hjónavígslu samkynhneigðra.

Ég ítreka ánægju mína með framkomu þessa frumvarps. Hér er stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja mannréttindi samkynhneigðra. Því er mikilvægt að samstaða ríki um málið. Ég heyri það á málflutningi háttvirtra þingmanna að hún er til staðar og það er gott. Ég vona því að málið fái góða meðferð.