132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta mál er gott fyrir þjóðfélagið að mínu viti. Það hlýtur að vera viðhorf flestra þjóðfélagsþegna að menn eigi jafnan rétt hvort sem þeir eru gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir. Við höfum markað okkur þá stefnu að gera ekki mun á fólki eftir trúarbrögðum, lífsskoðun, litarhætti eða stöðu fólks að öðru leyti. Það er því skoðun mín, sem ég gat um í andsvari við ræðu hæstv. forsætisráðherra, að þetta mál ættum við að klára með því að koma fyrir í lögum ákvæði um að einstaklingar, karlar eða konur, geti óskað eftir vígslu og eigi rétt á að hún fari fram. Sum trúfélög eða forsvarsmenn þeirra hafa lýst því yfir að þeir teldu að söfnuðir þeirra væru tilbúnir til að veita slíka vígslu. Ég tel að við eigum að koma því ákvæði fyrir í hjúskaparlögunum. Hjúskaparlögin marka stöðu karls og konu, eins og segir í 1. gr. laganna, með leyfi forseta: „Lög þessi gilda um hjúskap karls og konu. Þau taka ekki til óvígðrar sambúðar.“

Inn í þessa grein tel ég að á eftir orðunum „karls og konu“ ætti að koma texti sem segir: „og staðfesta með vígslu sambúð fólks af sama kyni“. Þannig lægi algerlega skýrt fyrir að fólk ætti rétt á að fá þessa vígslu. Það yrði svo að vera mál þjóðkirkjunnar hvenær hún telur sig þess umkomna að veita slíka þjónustu. Kirkjan verður auðvitað að klára þá umræðu og marka sér stöðu í þjóðfélaginu að því leyti.

Þeim trúarsöfnuðum hér á landi sem eru tilbúnir að veita slíka vígslu á að vera það heimilt og auðvitað mun íslenska þjóðkirkjan ekki gera annað en samþykkja í framtíðinni að svona verði málum fyrir komið, enda engin ástæða til annars. Ég veit ekki betur en allir séu skírðir, hvar í söfnuði sem þeir eru og af hvaða litarhætti sem þeir eru. Ég veit ekki betur en unglingar séu fermdir, af hvaða litarhætti sem þeir eru eða kynhvötum sem með þeim þróast. Ég sé enga ástæðu til að við förum ekki með það mál til enda sem við ræðum hér um. Með því færum við þjóðfélag okkar í þá átt að hér verði ekki mismunun. Í íslensku þjóðfélagi á hún ekki að vera til staðar.