132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn hér fagna þessu frumvarpi og lýsa yfir ánægju minni með að vera þátttakandi í þessari umræðu. Það gerist ekki svo oft, þó vissulega gerist það af og til, að við þingmenn getum sameiginlega glaðst yfir máli sem mikil eindrægni ríkir um og allir eru sammála um að sé framfaraskref og horfi til réttrar áttar hvað varðar þróun samfélags okkar og samfélagsgerðar. Þess þá heldur ber að fagna slíku sérstaklega. Það kann vel að vera að þetta þyki þar af leiðandi ekki sömu stórtíðindin og stundum eru sögð af umræðum hér þegar allt er í háalofti og út og suður. En fyrir mér er þetta virkilega stór og ánægjulegur dagur og í raun beint framhald af umræðum sem ég eins og margir fleiri þingmenn sem hafa setið hér um nokkurt árabil höfum verið þátttakendur í fyrr. Kannski hefur liðið lengri tími en maður hafði vonað frá 1996 og til þessa dags. Við erum í raun að ljúka því verki sem þá var tekið mjög stórt skref í, þ.e. að koma á fullu jafnrétti að þessu leyti milli þegna landsins óháð þeirra kynhneigð.

Auðvitað finnst manni svo sjálfgefið að slíkur hlutur sé svo fráleit málsástæða til að mismuna fólki að ekki á að þurfa að fjölyrða um það. En þannig er þetta nú engu að síður að enn eimir talsvert eftir af eldri hugsunarhætti í þessum efnum og hefur þó mikið breyst frá þeim tíma er samkynhneigt fólk á Íslandi flúði land. Það er því miður ekkert óskaplega langt síðan að það var hreinlega veruleikinn að þeir sem höfðu kjark til að koma fram og gangast við kynhneigð sinni að þessu leyti völdu þann kost alveg iðulega að hverfa úr landi og búsetja sig í nálægum löndum, gjarnan á einhverjum hinna Norðurlandanna þar sem menn voru á þeim tíma, fyrir svona 15–25 árum eða hvað við eigum að segja, talsvert lengra komnir ekki bara hvað lagalega hluti snertir heldur hvað almenn viðhorf í samfélaginu snertir og bara vegna þeirra aðstæðna sem þetta fólk mætti.

Tíundi áratugurinn var áratugur mikilla framfara í þessum efnum. Þessi mál bar þá á góma með ýmsum hætti eins og hér hefur verið rakið. Stærsta skrefið var tekið með lagasetningunni, lögum nr. 87/1996. Ég man þá umræðu mjög vel. Þá hefðu vissulega margir viljað ganga lengra. En allir fögnuðu þó því að Ísland var þá að taka verulega stórt skref í þessa átt, í raun svo róttækt skref að talsverða athygli vakti og við komumst með því í röð þeirra ríkja, nánast í einu stökki, sem hvað lengst gengu í þessum efnum og vorum frekar öðrum hvatning og fordæmi heldur en hitt. Það má kannski segja að að þessu leyti hafi málin hér á þessu sviði þróast pínulítið hliðstætt við fæðingarorlofið þar sem Ísland hefur þorað að ryðja dálítið brautina og fara að sumu leyti sínar eigin leiðir og að sumu leyti ganga lengra eða taka upp metnaðarfyllri ákvæði hvað varðar jafna stöðu karla og kvenna — ekki kannski heildarréttindin — heldur en víða annars staðar gerist.

Mér er mjög minnisstætt líka, svo maður leyfi sér að rifja upp atburði þessu tengda, að fljótlega eftir gildistöku laganna og eftir að þessar nýju heimildir komu til sögunnar þá var ég svo heppinn að fara með stuttu millibili í tvær brúðkaupsveislur eða taka þátt í hátíðahöldum tveggja samkynhneigðra para sem voru að nýta sér hin nýfengnu réttindi og það voru alveg einstaklega gleðilegir atburðir. Ég man svo vel hversu mikill fögnuður var ríkjandi meðal þeirra sem þar voru þá saman komnir til að gleðjast yfir því að þetta fólk hefði loksins fengið þessi sjálfsögðu réttindi.

Ég held að menn eigi hrós skilið fyrir það hvernig hér er að málum staðið og það er búið að fara í gegnum löggjöfina. Þó að því sé ekki lofað að það sé tæmandi, og að sjálfsögðu er það ekki svo, þá er samt í öllum aðalatriðum tekið á þeim atriðum í fjölmörgum lagabálkum sem taka þarf á til þess að setja inn í staðinn fyrir orðið „hjón“ eða „karl og kona“ o.s.frv. það orðalag eða þá skírskotun sem tryggir full réttindi.

Það er aðeins eitt sem út af stendur og er tilfinningalegt, sumpart menningarlegt en þó í reynd líka beinlínis réttindabundið mál. Það er það að sambúð geti fengið sambærilega vígslu eða blessun kirkju, trúfélaga eða safnaða og hjónaband karls og konu. Ég vil segja það fyrir mitt leyti og okkar að það er sjálfsagt, og lágmark að mínu mati, að hafa það algerlega skýrt í lögum að trúfélögum sé slíkt heimilt. Það þarf að taka hið snarasta út þau ákvæði í gildandi hjúskaparlögum, og annars staðar sem þau er að finna, að á því séu einhverjir lagalegir meinbugir þannig að öllum þeim sem það vilja sé þetta frjálst. Það liggur alveg fyrir að miklu meira en nægur fjöldi presta innan þjóðkirkjunnar er fús til þess að blessa eða vígja slíka sambúð. Og síðast í gær, ef ég man rétt, heyrði ég fríkirkjuprest lýsa því yfir í útvarpinu að ekki stæði á honum, hann hefði í raun og veru framkvæmt athafnir sem að öllu leyti væru sambærilegar við kirkjulega vígslu nema það að hinn lögformlega þátt vantar — það vantar það að forstöðumaður safnaðarins geti undirritað pappíra og með formlegum hætti lýst blessun eða vígslu. Það standa engin rök til þess að það sé hindrað með lögum.

Ég tel miklu nær að menn ræði í framhaldinu hvort þau trúfélög sem vilja neita félagsmönnum sínum um þessa þjónustu þurfi þá ekki að horfast í augu við að því geti fylgt afleiðingar. En strax og valið er komið til sögunnar er málið að verulegu leyti leyst.

Ég vek athygli á því að þetta mál snýst ekki bara um kirkjuna, ekki bara um kristna söfnuði. Það hlýtur að snúast um öll trúfélög og mögulega í framtíðinni viðurkennd lífsskoðunarfélög — það er að mínu mati löngu tímabært að taka á dagskrá hér að lífsskoðunarfélög geti fengið að lögum sambærilega skoðun og viðurkennd trúfélög eða söfnuðir. Þannig er því t.d. fyrir komið í Noregi að lífsskoðunarfélög geta sótt um að fá sambærilega stöðu og trúfélög og öðlast þar með sömu réttindi. Þetta eru yfirleitt félög sem byggjast á skilgreindum siðrænum og húmanískum grunni. Það er fullkomlega viðurkennt að fólk sem hefur þá lífsskoðun er ekki trúað en byggir sinn siðræna tilverugrundvöll, getum við sagt, á lífsskoðun sem styðst við tiltekin mannúðleg, siðræn gildi.

Það þarf líka að taka á rétti og stöðu trúlausra. Að sjálfsögðu er trúfrelsi ekki virt í reynd í lögum lands nema trúlausir hafi sömu stöðu og sama rétt og aðrir og þeirra staða sé viðurkennd. Það má færa fyrir því sterk rök að svo sé ekki í dag, m.a. vegna þess fyrirkomulags sem er á innheimtu gjalda o.s.frv. Þetta kemur inn á annað mál sem mér er hugleikið og snýst um það að tryggja betur í sessi trúfrelsi í landinu, rétt manna til trúleysis og rétt manna til að mynda með sér félög um tiltekin siðræn, mannúðleg gildi, lífsskoðunarfélög o.s.frv.

Ég er þannig skapi farinn að mér finnst við ekki eiga að ræða hvort heimildin sé ekki sjálfsögð, hún er það svo sannarlega, það á ekki að þurfa að rökræða um það. Mér finnst að umræðan ætti frekar að vera á þeim nótum hvort trúfélögum og söfnuðum sé yfirleitt stætt á því að gera þetta ekki. Ætti það ekki frekar að vera í þá áttina að þau þurfi jafnvel að horfast í augu við að löggjafinn geti sagt sem svo: Ef menn gera þetta ekki, þá er spurning hvort menn verða ekki að taka afleiðingunum af því hverjar sem þær svo sem gætu verið. Ég er út af fyrir sig sammála því að það er ekki hægt að lögum að þvinga — það er ekki nálgun sem ég mæli fyrir hér svo það misskiljist ekki — menn til að gera eitthvað sem er andstætt því sem þeir telja sinn trúarlega grundvöll — ef einhver trúfélög telja sér alls ekki stætt á því og það brjóti gegn þeirra trú að gera þetta. Það er þó ekki þannig í heiminum að trúarbrögð upphefji algild mannréttindi. Við skrifum vonandi ekki upp á það í lýðveldinu Íslandi. Við mundum t.d. ekki líða trúarbrögð í okkar landi sem skytu sér að bak við trú og mismunuðu kynjunum, brytu mannréttindi á helmingi mannkynsins vegna þess að það væri trúarbundið. En því miður er það þannig að bókstafstrúarmenn eða fúndamentalistar víða í heiminum, ekki bara í hinum múslimska heimi, við skulum gæta okkar á því að alhæfa ekki á þann veg, heldur líka innan hins kristna heims, skjóta sér á bak við trúna þegar að því kemur að beygja og sveigja ýmis algild mannréttindi. Slíkt viljum við að sjálfsögðu ekki hafa þannig að um leið og við skulum sýna trúarbrögðunum umburðarlyndi, og hafa á því skilning að hér er um viðkvæm og tilfinningabundin mál að ræða, þá verða trúfélögin líka að hafa hitt í huga. Það er aldeilis ekki að þetta sé einhliða mál sem snúi bara að löggjafanum, þetta snýr að þeim líka og þau verða að átta sig á því í hvaða heimi við lifum. Þau verða að átta sig á því að við líðum ekki mismunun og mannréttindabrot þó að menn skáki í skjóli trúar. Fullkomið jafnrétti skal það vera og það sem við getum best gert miðað við aðstæður núna, hvað varðar þennan eina þátt málsins sem þó virðist standa út af, er að taka þarna inn mjög skýra og afdráttarlausa heimild til handa þeim sem vilja veita sambúð eða samvist samkynhneigðra einhvers konar vígslu eða blessun.

Auðvitað hefur mikið vatn runnið til sjávar og viðhorf og viðmót samfélagsins hafa þróast í risaskrefum frá þeim tímum sem ég var að rifja hér upp, sem lýstu sér m.a. í því að samkynhneigðir, þeir fáu sem gengust við sinni kynhneigð, völdu iðulega að flýja land. En þó er það því miður þannig hvað hin almennu viðhorf samfélagsins varðar að víða eimir eftir af misskilningi — við skulum kalla það misskilning en ekki fordóma í tilefni dagsins — og heilmikið verk er óunnið á þeim vettvangi. En auðvitað er frágangur þessara mála í lögum landsins og skýr vilji, ég tala nú ekki um svona afdráttarlaus samstaða, löggjafans geysilega mikilvægt innlegg í það mál. Þess vegna er sérstakt fagnaðarefni að við skulum standa svo vel hér á Íslandi nú að um þetta ríki, að því er best verður séð, alger samstaða. Ekki heyrist ein einasta rödd, eins og var þó fyrir tæpum 10 árum, og skal ekki meira um það sagt, andæfa því að þetta skref verði stigið.

Ég fæ ekki betur heyrt, frú forseti, á umræðunni hér en um þetta mál ríki það mikil samstaða — hér hafa svo margir ræðumenn lýst viðhorfum sínum í þá átt og hæstv. forsætisráðherra vísaði til þess að þetta sé hlutur sem þingnefnd og þingið sjálft hljóti að skoða — að ástæða sé til fullrar bjartsýni á að þessi litla lagfæring verði gerð á frumvarpinu. Þá verður virkilega tilefni til að fagna og virkilega tilefni til að vera stoltur af því að Ísland hafi þá í þessum efnum skipað sér og sínum málum í allra fremstu röð í heiminum. Það er ekki slæmt veganesti að hafa í farteskinu þegar og ef og þar sem þessi mál ber á góma og gaman að því að Ísland geti verið öðrum fyrirmynd og til eftirbreytni í þessum efnum.