132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hans svör og ég vil láta það koma fram að það er mitt sjónarmið að að sjálfsögðu ber að virða sjálfstæði kirkjunnar og sjálfstæði trúfélaga í þessum efnum og hér hefur enginn maður, svo ég hafi heyrt í dag, talað fyrir neins konar lögþvingun í þeim efnum. Það er eðlilegt að menn þurfi sinn tíma til að klára þessi mál og þá bara fá menn hann. En ég sé ekki annað en sú vinna og sú umfjöllun mála hjá þjóðkirkjunni eða öðrum trúfélögum geti allt eins farið fram í því lagaumhverfi að heimild sé til staðar fyrir þau trúfélög og þá söfnuði sem það kjósa að vígja eða blessa samvist samkynhneigðra. Það má velta því fyrir sér hvort tímabundið væri höfð sú regla sem hæstv. forsætisráðherra vitnar til að sé fremur reglan en undantekningin í nálægum löndum að fyrst komi hinn borgaralegi frágangur málsins, fyrst séu skjölin undirrituð hjá fógeta, sýslumanni eða notariusi eða hvað það nú er og síðan komi blessun eða vígsla í kirkju sem er þá fyrst og fremst trúarleg eða táknræn, ekki hinn lögformlegi frágangur pappíra. Ég býst við að menn gætu alveg sætt sig við það ef það einfaldar málin eitthvað í bili. Ég sé þó ekki að þess þurfi endilega. Það mætti einfaldlega hafa þetta þannig að þetta væri algerlega valkvæmt, þetta væri heimilt þeim söfnuðum, þeim prestum, þeim trúfélögum sem það vildu og síðan bara réðist það hvaða tíma þau hvert fyrir sig tækju sér til að útkljá málið í sínum röðum vonandi í sem mestri sátt. Það er alveg augljóst hvaða skilaboð löggjafinn væri í sjálfu sér að gefa með slíkri heimild en menn þurfa þá líka, ef hún kemur ekki til sögunnar, að svara fyrir það af hverju ekki, hver eru rökin til þess að opna þetta ekki?