132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Á 130. löggjafarþingi lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. þáverandi fjármálaráðherra um ýmislegt sem varðaði skattamál tengd Kárahnjúkavirkjun eða þeim framkvæmdum og þá sérstaklega hvernig hagað yrði skattheimtu af launum erlendra starfsmanna. Ég spurði sérstaklega hvaða álitamál og vandamál fjármálaráðuneytið teldi líklegt að kæmu upp eða kynnu að koma upp í sambandi við skattalega meðferð mála af þessu tagi.

Svar ráðuneytisins á þskj. 821 á 130. löggjafarþingi vakti nokkra athygli, og var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.“

Þetta svar vakti mikla undrun mína vegna þess að þá þegar virtist annað blasa við. Fréttir voru af ýmsum erfiðleikum sem tengdust m.a. skráningu erlendra starfsmanna, eða ekki-skráningu, sem tengdist því að erlendir starfsmenn komu inn í landið á skammtímaskilmálum í sumum tilvikum og hurfu síðan úr landi aftur án þess að greiða eina einustu krónu. Vandséð var hvernig fjármálaráðuneytið íslenska, skattyfirvöld, ætlaði að ná af þeim sköttunum eftir að þeir voru komnir til síns heima.

Ég lagði því aftur fram fyrirspurn á sama þingi og þá munnlega sem svarað var 5. maí 2004 og enn sat fjármálaráðuneytið við sinn keip og hélt því blákalt fram að þrátt fyrir þó þá reynslu sem þá var komin á að engin sérstök vandamál eða álitamál væru líkleg til að koma upp eða hefðu komið upp í sambandi við skattalega meðferð mála vegna þessara framkvæmda.

Í þriðja sinn lagði ég fram fyrirspurn á 131. löggjafarþingi, á þskj. 416, og spurði ráðuneytið hvort það væri enn þeirrar skoðunar að engin sérstök vandamál hefðu komið þarna upp í sambandi við skattalega meðferð. Þá lá fyrir, og hefur reyndar gert lengi, mikil óánægja sveitarfélaga á svæðinu með hvernig hagað var skráningu erlendra starfsmanna og ljóst að útsvarstekjur skiluðu sér ekki til sveitarfélaganna neitt í líkingu við það sem átt hefði að gera ef allur sá fjöldi erlendra starfsmanna sem starfaði á svæðinu hefði greitt sínar skyldur.

Enn var svarið hið sama.

Nú blasir það við samkvæmt fréttum t.d. í sjónvarpinu fyrir nokkru síðan að innheimta skatta af erlendum starfsmönnum við Kárahnjúka eru enn í ólestri vegna rangra skráninga og innheimtuárangur sýslumannsembættisins á Seyðisfirði á síðasta ári vegna tekna ársins 2003 hrapaði niður í 37%, úr 90% eins og hann var að jafnaði áður en þessar framkvæmdir hófust í umdæminu.

Ég ítreka því enn spurningu mína (Forseti hringir.) til fjármálaráðherra: Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að þarna séu engin sérstök álitamál eða vandamál uppi?