132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann ber fram um hvort ráðherra sé „enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál séu uppi eða hafi komið upp í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar“ er svohljóðandi að þessu sinni:

Að mati fjármálaráðherra eru engin sérstök álitamál eða vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu. Varðandi þessa framkvæmd sem aðrar kemur oftar en ekki upp sú staða að túlkun forsvarsmanna fyrirtækja sem að framkvæmdinni standa á einstökum ákvæðum skattalaga fer ekki alltaf saman við túlkun skattyfirvalda. Við slíkar aðstæður kæra aðilar alla jafna niðurstöðu skattyfirvalda til þar til bærra stjórnvalda, eins og yfirskattanefndar, þar sem málin eru endanlega til lykta leidd.

Það hefur gerst í málum sem tengjast þessari framkvæmd og eru þau í sínum eðlilega farvegi. Rétt er að geta þess að ágreining um skattskyldu og skattstofna má einnig bera undir dómstóla.