132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:07]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að skattheimta erlendra starfsmanna hefur ekki skilað sér til viðkomandi sveitarfélags. Útsvarstekjur sveitarfélagsins af þessum starfsmönnum eru því ekki eins og áætlaðar voru. Jöfnunarsjóður aftur á móti áætlar tekjur sveitarfélagsins með tilliti til þess fjölda erlendra starfsmanna og starfsmanna sem eru á svæðinu og eiga að greiða útsvar. Hann áætlar útsvarstekjur sveitarfélagsins með tilliti til þess og áætlaðra tekna starfsmannanna og lækkar framlag jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins þar af leiðandi.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað verður því fyrir tvöfaldri skerðingu, þ.e. fær ekki þær útsvarstekjur sem því ber og verður fyrir skerðingu úr jöfnunarsjóði vegna þessa.