132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem hv. þm. Hlynur Hallsson, sem hér sat á þingi, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, lagði fram fyrr í haust. Hún varðar stöðu framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þar hefur gengið á ýmsu. Ég ætla hér ekki að ræða hvernig búið hefur verið að og hvaða laun hafa verið greidd erlendum starfsmönnum á svæðinu og þau hrottalegu félagslegu undirboð sem hafa verið ástunduð. Það er önnur saga. Ég ætla ekki að ræða hér umgengni á svæðinu sem að sögn kunnugra er með slíkum endemum að sjaldan hefur annað eins sést á Íslandi. Ég ætla heldur ekki að ræða slysin, til dæmis, sem eru auðvitað mikið áhyggjuefni, hvernig 20% fjölgun vinnuslysa á Íslandi á síðasta ári er öll eins og hún leggur sig rakin til þessarar einu framkvæmdar. 316% fjölgun slysa á Austurlandi milli ára þar sem þau fara í 524 úr 126, milli áranna 2003 og 2004, og úr 40 miðað við árið 2002, áður en framkvæmdirnar hófust er auðvitað hlutur sem menn ættu aðeins að staldra við.

Það sem ég ætla að spyrja um er verkið sjálft, framkvæmdin, og hvernig þar horfir. Það er auðvitað stórt og mikið mál burt séð frá öllu öðru. Mér leyfist vonandi að spyrja um það óháð því hvaða afstöðu ég hafði til þess að ráðist yrði í þessa framkvæmd. Þó gæti hugsast að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti það til að detta í það hjólfar sitt að telja spurningarnar ómarktækar af því að þær koma úr þessari átt.

Stíflustæðið reyndist mun sprungnara og erfiðara viðfangs en menn höfðu gert ráð fyrir. Gangagerðin hefur sömuleiðis gengið mun verr vegna þess að misgengi eru miklu meiri og lausari jarðlög en menn reiknuðu með. Mjög margt hnígur að því að menn hafi undirbúið þessa framkvæmd slælega og að þeir hafi fegrað mjög fyrir sér aðstæðurnar og það komi þeim nú í koll. Sennilega á sú fræga setning í matsskýrslu um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, að berglög á svæðinu séu sérstaklega hentug til mannvirkjagerðar, eftir að standa sem einhver mestu öfugmæli sem nokkurn tímann hafa verið sett á prent af því tagi.

Það stærsta sem þetta snýst þó væntanlega um, hvað varðar fjárhagstjón, er spurningin um það hvort framkvæmdirnar frestast um eitt ár, afhending raforkunnar tefst og Landsvirkjun verður stórlega skaðabótaskyld af þeim sökum. Það mun leiða til fjárhagstjóns sem mun hafa veruleg áhrif á fjárhag fyrirtækisins og er þó þegar orðinn gríðarlegur viðbótarkostnaður vegna þessara tafa og erfiðleika sem menn hafa ratað í í framkvæmdinni. Þess vegna er spurt:

1. Hversu mikið hefur einstökum framkvæmdaþáttum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar seinkað nú þegar?

2. Hefur áhættan sem fylgir fyllingu Hálslóns og rekstri virkjunarinnar verið metin upp á nýtt í ljósi þess að mun meiri sprungur og misgengi hafa komið í ljós í stíflustæðinu og í jarðgöngum en ráð var fyrir gert?

3. Hver er umframkostnaður Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun nú þegar orðinn og hvaða áhrif mun hann hafa á fjárhag Landsvirkjunar og raforkuverð í landinu?