132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:28]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér að upp hafa komið nýjar aðstæður, þ.e. að misgengið er meira og jarðlög eru lausari en ráð var fyrir gert, en það er ekkert einsdæmi að ástand bergs komi á óvart í slíkri framkvæmd. Nægir t.d. að benda á jarðgangagerð á Vestfjörðum í því sambandi.

Það kom fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra að Landsvirkjun vinnur núna í því að gera nýtt áhættumat. Ég tel það mjög ábyrgt af hálfu Landsvirkjunar að fara út í slíkt. Ég vil ekki fara út í það að spyrja um krónur og aura í því sambandi hvað slíkt áhættumat eða nýjar skýrslur kosta. Ég held að menn séu fyrst og fremst að hugsa um að bregðast við af ábyrgð. Nýjar aðstæður eru að koma upp og ég held að framkvæmdaraðilar hafi brugðist hárrétt við þeim.