132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Hæstv. forseti. Nýjar aðstæður, sagði hv. þm. Dagný Jónsdóttir áðan. Ég veit ekki annað en að fjöllin, jökullinn og allt þetta hafi verið til staðar þegar þessar virkjanaframkvæmdir voru undirbúnar og ekkert hafi þar breyst. Það sem hefur hins vegar gerst er að menn eru að átta sig á því að matsvinnan í aðdraganda ákvörðunar um virkjunina var kannski ekki sem best. Ályktanirnar sem dregnar voru voru rangar. Enda var þessu þröngvað í gegnum umhverfisráðuneytið gegn vilja Skipulagsstofnunar.

Ég velti fyrir mér og vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver ber ábyrgð á svona vinnubrögðum, að núna sé reynt að ráðast í áhættumat, í jarðskjálftamat, í misgengismat á einni stærstu og hrikalegustu framkvæmd Íslandssögunnar? Kannski gæti hæstv. ráðherra líka upplýst það hvers vegna bygging álverksmiðjunnar heldur áfram þótt þar sé ekkert starfsleyfi komið. Þessi framkvæmd er dapurleg frá upphafi.