132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Svörun í þjónustusíma.

247. mál
[12:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta var afar athyglisvert svar hjá hæstv. viðskiptaráðherra og yfirmanni samkeppnis- og neytendamála í landinu. Það er ekki í mörg hús að venda ef undirtektirnar undir hugmyndir um að markaðsráðandi fyrirtækjum eða einokunarfyrirtækjum sé veitt aðhald af hálfu stjórnvalda eru slíkar þegar kemur að þjónustu sem fyrirtækin ein hafa í boði en veitt er með þeim endemum sem hér var lýst eða önnur sambærileg tilvik koma upp. Er þá svar hæstv. viðskiptaráðherra alltaf hið sama: Markaðurinn sér um þetta.

Hæstv. ráðherra talar eins og fullkomin samkeppni sé á þessum markaði og að fyrirtæki sem veiti slælega þjónustu muni bara hverfa. En ef fyrirtækið er bara eitt, hvert eiga menn þá að snúa sér? Við erum að tala um grimmilegt fákeppnis- og einokunarumhverfi sem ríkisstjórnin hefur reyndar átt þátt í að búa til. En þá skulu landsmenn bara éta það sem úti frýs og sætta sig við eins lélega þjónustu á ýmsum sviðum og þá gerist af því að hæstv. ráðherra trúir því að markaðurinn muni sjá um allt saman.