132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Svörun í þjónustusíma.

247. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af því að samkeppnismál og neytendamál séu í höndum ráðherra sem ekki hefur ríkari skilning á þeim verkefnum. Ég vil benda á lögin um póstþjónustu þar sem settar þjónustuskyldur um hversu lengi bréf mega vera að berast, frá því að þau eru sett í póst þar til að þau eiga að vera komin til viðtakanda. Það þykir eðlileg þjónustukrafa. Með sama hætti er hægt að gera nákvæmlega sömu þjónustukröfu til markaðsráðandi fyrirtækis eins og Símans. Jafnvel þótt hann væri ekki markaðsráðandi nema í einstökum landshlutum, eins og hann er, væri eðlilegt að setja honum þjónustukvaðir.

Ég bendi á lögin sem hæstv. ráðherra er ábyrg fyrir að séu framkvæmd. Ég bendi á lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Ég bendi líka á lögin um neytendakaup sem fjalla m.a. um þau atriði sem ég hef minnst á, hjá markaðsráðandi aðilum í sölu á vöru og þjónustu. Ég er áskrifandi að þessari þjónustu. Ráðherra er í sjálfu sér ábyrg fyrir því að þjónustan sé sett í þann ramma að hagsmunir neytenda séu tryggðir.

Ég óska því eftir því, frú forseti, að hæstv. ráðherra íhugi þetta mál frekar. Þessi sjálfvirka símsvörun sem er að ryðja sér til rúms, ekki bara hjá Símanum heldur hjá mörgum öðrum mikilvægum fyrirtækjum og stofnunum, má ekki koma þannig niður að það virðist aldrei eða seint og illa hægt að ná eðlilegu sambandi.