132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tryggingavernd torfæruhjóla.

302. mál
[12:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hér hæstv. viðskiptaráðherra:

Telur ráðherra þörf á að endurskoða lög og reglur sem ná til trygginga torfæruhjóla, bæði við æfingar á lokuðum svæðum og í keppnum, m.a. með tilliti til aldurs og vaxandi fjölda þeirra sem aka slíkum hjólum og þess hversu óljós tryggingavernd torfæruhjóla virðist vera samkvæmt lögum? Ef svo er, hvenær má vænta þess að endurskoðun hefjist og hvaða aðilar munu koma að henni?

Nú eru tryggingar, virðulegur forseti, geysidýrar á þessum torfæruhjólum. Þær fara allt upp í 350–400 þús. kr. á ári hjá nýjum ökumönnum. Þetta er alveg geysilega dýrt. Á sama tíma er mjög takmarkað hvað hægt er að nota þessi hjól. Það er líka þannig að yngsti hópurinn, þ.e. sá hópur sem er 12–15 ára, á mjög erfitt með að nota þessi hjól vegna þess að ekki fást leyfi hjá sýslumönnum til að nota þau lokuðu svæði sem nú þegar gefast, sem eru reyndar allt of fá, en þau eru nokkur, og það er erfitt að fá leyfi á þeim svæðum.

Þrátt fyrir það segir í 16. gr. reglugerðar um akstursíþróttavæði, með leyfi virðulegs forseta:

„Með leyfi lögreglustjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum umferðarlaga um ökuskírteini og lágmarksaldur ökumanna við æfingar og keppnir á lokuðum svæðum utan vega.“

Svo eru aðrar takmarkanir sem sýna við hvað þetta getur átt og þær eru að 12 ára börn mega aka hjólum sem eru með allt að 80 rúmsentimetra vélum, 14 ára upp í 125 rúmsentimetra og 15 ára upp í 250 rúmsentimetra. En veruleikinn er sá að sýslumenn heimila ekki þessum ungu ökumönnum að nýta svæðin þannig að svæðin eru lokuð fyrir þeim, þrátt fyrir að heimilt sé að hafa þau opin.

Af hverju leyfa sýslumenn þessum ungu mönnum ekki að nýta svæðin? Jú, það er vegna þess að tryggingafélögin hafa neitað að tryggja þessa ungu ökumenn, þó að þeim sé það heimilt. Það er nú þegar stór hópur ungra ökumanna sem æfir en hefur ekki tryggingar þannig að það verður að taka á þessu máli.

Tryggingaverndin er einnig óljós hjá hinum eldri og til eru dæmi um að menn séu tryggðir ákveðna keppnisdaga og það felst þá í svokölluðum tryggingaviðauka en þeir eru líkast til ekki tryggðir utan keppnisdaganna.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu benda á að Umferðarstofa setti fram minnisblað 24. október sl. og þar kemur fram að mörg þessara tækja eru ótryggð og að þetta ástand sé óviðunandi. Iðgjöldin eru svo há að menn telja sig ekki geta staðið undir þeim og það er tregða hjá stjórnvöldum að veita leyfi fyrir notkun þessara lokuðu æfinga- og keppnissvæða. Sú tregða stafar af því að tryggingafélögin vilja ekki tryggja hjólin þannig að Umferðarstofa bendir á að taka þarf tryggingamálin til endurskoðunar. Mun ráðherra beita sér eitthvað í því?