132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tryggingavernd torfæruhjóla.

302. mál
[12:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel það ekki alls kostar rétt sem hér kom fram að þessi tryggingamál séu í góðum farvegi og að þeim þurfi ekki að breyta. Það er alveg ljóst að tryggingamálin eru óljós. Það kemur mjög skýrt fram m.a. í minnisblaði frá Umferðarstofu en þar er sagt að sá vandi sem þessi hópur býr við, hópurinn sem stundar torfæruhjólaakstur sér til ánægju, er ekki aðeins tengdur skráningu tækjanna heldur nær einnig yfir aðra þætti, svo sem ökuréttindi, tryggingamál og reglur um notkun. Það þarf því að taka á tryggingamálunum.

Í niðurlagi þessa minnisblaðs er kallað eftir því að hlutaðeigandi aðilar taki upp aukið samráð til að laga m.a. tryggingamálin. Mér er kunnugt um að forsvarsmenn Vélhjólaíþróttaklúbbsins, sem eru hagsmunasamtök torfæruhjólamanna og í þeim samtökum eru 600 aðilar, hafa kallað eftir samráði við tryggingafélögin og hafa gert það skriflega en ekki fengið áheyrn, ekki hingað til. Ég tel mjög brýnt að hæstv. viðskiptaráðherra, sem ber ábyrgð á tryggingamálum á Íslandi, beiti sér, ef nokkur kostur er, að því markmiði að samráð verði haft við þessa hagsmunaaðila til að koma tryggingamálunum á hreint. Það er auðvitað óviðunandi að þau séu ekki ljós, ekki bara fyrir þá fullorðnu, ég minni líka á börnin. Það eru börn að stunda æfingar og vilja gjarnan taka þátt í keppni og þá þarf að vera ljóst að þau séu tryggð. Ég skil mjög vel sýslumenn sem vilja ekki veita þeim heimild til að taka þátt í keppni ef þau eru ekki tryggð. Þessum málum þarf að koma á hreint. Erlendis keppa börn og unglingar á svona hjólum og gengur bara (Forseti hringir.) prýðilega.