132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[12:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Iðnaðaráðuneytið, Landsvirkjun og ferðamálayfirvöld hafa um langt skeið hugað að því hvaða áhrif virkjanir norðan Vatnajökuls mundu hafa á ferðamennsku á því svæði. Á árinu 1996–1997 var gerð sérstök rannsókn meðal ferðamanna er ferðuðust um þetta svæði og vönduð skýrsla var unnin um hugsanleg áhrif virkjana á ferðamennsku svæðisins. Þá var á vegum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma gerð rannsókn á áhrifum Kárahnjúkavirkjunar á ferðamennsku á svæðinu með tilliti til þess að þar yrði síðar komið á laggirnar þjóðgarði.

Eftir að virkjunarframkvæmdir hófust gerði Landsvirkjun samkomulag við heimamenn um ýmis mál er tengjast byggingu og rekstri Kárahnjúkavirkjunar. Þar kemur m.a. fram að fyrirtækið hyggst koma upp aðstöðu við Hálslón þar sem tekið yrði á móti ferðamönnum til kynningar á framkvæmdum og náttúrufari svæðisins. Þessi aðstaða verði gerð til frambúðar þannig að hún muni nýtast fyrir hugsanlegan þjóðgarð á svæðinu. Enn er óljóst hvernig háttað verður skipulagi og hönnun þessarar aðstöðu eftir að virkjunarframkvæmdum lýkur. Þá hefur Landsvirkjun haft náið samráð við heimamenn um uppbyggingu vega og slóða á svæðinu, m.a. með það í huga að þeir nýttust ferðamönnum í framtíðinni. Fyrirtækið hefur lagt fram verulegt fjármagn í því skyni, m.a. til endurbóta á Brúardalsleið og fyrirhugað er að lagfæra veginn um Hrafnkelsdal og áhugi er á því hjá heimamönnum að tengja þann veg um Glúmsstaðadal við núverandi aðkomuveg að Kárahnjúkastíflu.

Síðast en ekki síst ber að nefna hið umfangsmikla kynningarstarf og sýningu á virkjunarframkvæmdum og náttúrufari svæðisins sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir í Félagsheimilinu Végarði í samstarfi við heimamenn á síðustu þremur árum. Hafa árlega um 12–15 þúsund gestir sótt sýninguna heim og er almenn ánægja meðal gesta með hvernig til hefur tekist. Er áformað að þessari starfsemi verði haldið áfram a.m.k. um fimm ára skeið eftir að framkvæmdum lýkur á svæðinu.

Af ofansögðu er ljóst að í dag er unnið að framtíðarstarfsemi í ferðamennsku á svæðinu í góðu samstarfi Landsvirkjunar og heimamanna og ferðaþjónustuaðila og af þeim sökum er það mitt mat að ekki sé þörf á að iðnaðarráðuneytið komi þar frekar að málum.