132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[13:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir svörin. Það er athyglisvert að heyra hve margir gestir hafa komið tvö síðustu sumur til að skoða og fylgjast með framkvæmdunum. Það segir okkur einmitt að það muni verða meiri ásókn þá fram líða stundir.

Ég gat um það áðan að víða erlendis hefur verið komið upp sérstakri aðstöðu fyrir ferðamenn jafnvel á stíflugörðunum sjálfum til að sjá þessar miklu framkvæmdir og gera sér grein fyrir hvílíkur byggingarmassi ein stífla getur verið. Enn fremur hefur líka jafnvel verið boðið upp á að fara í lyftum niður í iður jarðar til þess að skoða hverfla og túrbínur og það hefur líka verið mjög vel sótt.

Ástæða mín fyrir að leggja fram þessa spurningu er m.a. sú staðreynd sem blasir við víða erlendis og hefur þegar borið á hér á Íslandi að fólk hefur mikinn áhuga á að skoða þessar mögnuðu virkjanir. Þess vegna vildi ég beina því til hæstv. iðnaðarráðherra að það yrði sérstaklega skoðað, af því að gert er ráð fyrir að vegur liggi yfir stíflugarðinn sjálfan, hvort ekki mætti huga að því að þarna gætu hugsanlega rútur með ferðamenn áð um stund til að skoða þetta mannvirki svo að ekki þurfi að fara í einhverjar framkvæmdir síðar meir til að mæta þeirri þörf og þeim óskum sem eru eftir framboði á ferðaþjónustu við ferðamenn.