132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Gleraugnakostnaður barna.

95. mál
[13:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir undirtektir við þetta mál. Ég verð því miður að upplýsa að ég hef ekki nákvæmar tölur um hversu margir einstaklingar fá hér aðstoð. Eins og kom þó fram eru 1.590 börn og unglingar undir 16 ára aldri sem hafa fengið aðstoð. Nú færist þetta upp í 18 ára aldur. Það er unnið að þeirri útfærslu í ráðuneytinu en ég reikna með að þarna muni verulegur fjöldi til viðbótar njóta aðstoðar því að þarna þrefaldast framlögin og rúmlega það. Það skapar verulegt svigrúm til þess að taka betur á í þessu efni.

Ég endurtek þakkir mínar til fyrirspyrjanda fyrir áhuga á þessu máli. Það er alveg rétt að hv. fyrirspyrjandi hefur verið dugleg að vekja athygli á þessu máli á hv. Alþingi, og fleiri. Hvort sem kemur á undan hefur líka í mínum flokki verið þrýstingur á þetta mál, ungt fólk í mínum flokki, ungir flokksbræður mínir hafa líka haft þetta mál á dagskrá. Þetta er eitt af þeim málum sem almennur skilningur ríkir gagnvart í samfélaginu að þurfi að taka á. Ég vona að við getum tekið á þessu með farsælum og skynsamlegum hætti.