132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Viðbygging við sjúkrahúsið á Selfossi.

133. mál
[13:26]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér var um að ræða ákveðna leið til að leysa úr ágreiningsmáli sem þarf að leysa úr. Annars vegar er sú skoðun að sveitarfélagið eigi að greiða 15% í þessu hjúkrunarrými, jafnvel þó að þau séu ekki í starfstengslum við sjúkrahúsið og hins vegar sú skoðun að þetta falli undir ákvæðið um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga og falli undir 100% greiðsluþátttöku ríkisins. Það þarf að skera úr þessu og ég vonast svo sannarlega til að það verði gert.

Ég skal ekkert um það segja hvernig sá gerðardómur sem skipaður hefur verið afgreiðir þetta mál en auðvitað hlíta menn niðurstöðu hans. Þetta er ágreiningsmál sem er nauðsynlegt að skera úr um, bæði vegna þessarar framkvæmdar og annarra hliðstæðra framkvæmda. Vonandi næst niðurstaða á þessu ári og verður þá endurgreitt ef það fellur sveitarfélögunum í hag, en ef það fellur aftur ríkinu í hag eru sveitarfélögin búin að greiða sinn hluta eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég legg áherslu á að skorið verði úr í þessu máli. Svo vil ég geta þess að það skiptir auðvitað miklu máli að framkvæmdin sjálf er á góðu skriði en komast þarf að niðurstöðu í málinu.