132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Ráðstöfun hjúkrunarrýma.

153. mál
[13:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég hef gert að umræðuefni nokkrum sinnum á Alþingi afleita stöðu ungra alzheimersjúklinga gagnvart öldrunarþjónustunni, en þjónustu fyrir þá skortir mjög. Alzheimersjúkdómurinn er sjúkdómur sem ekki aðeins aldraðir fá heldur yngra fólk einnig. Nú hefur ástandið versnað mjög hjá þessum hópi yngri alzheimersjúklinga því búið er að setja þannig reglur fyrir hann að hann getur nánast ekki komist inn á hjúkrunarheimili.

Frá 1992 þegar vistunarmati var komið á og þangað til í byrjun árs 2004 var vistunarmat handgert fyrir alla sjúklinga með öldrunarsjúkdóma, líka þá sem voru undir 67 ára, og allir áttu sama rétt til að komast í forgang. Í ársbyrjun 2004 var vistunarmatið gert rafrænt og um leið lokað fyrir sjúklinga yngri en 67 ára. Þetta gerðist án nokkurs samráðs og umræðu. Um er að ræða átta manns á ári að meðaltali, en þetta fólk átti sem sagt rétt á forgangi eins og aðrir áður en þessu var komið á og þá farið eftir hjúkrunarþyngd en ekki aldri. Þeir þurfa nú að bíða inni á sjúkrahúsi eftir 67 ára afmælisdegi sínum. Þá fyrst er hægt að sækja um og þá á viðkomandi eftir að fikra sig upp biðlistann. Þessar nýju reglur komu 1. september síðastliðinn og nú bíða sex manns í þessari stöðu á Landakoti og ef ekkert breytist verða þeir að bíða þar nokkur ár og fleiri bætast í hópinn á hverju ári. Þeir teppa sjúkrarúm og tefja innlagnir, m.a. frá bráðadeildum spítalans og heimahúsum.

Nýju reglurnar fela í sér flókið undanþáguferli með greinargerðum út og suður, jafnvel frá aðilum sem ekkert þekkja til sjúklingsins, og mörgum beiðnum fyrir sama sjúkling með mjög viðkvæmum persónulegum upplýsingum um sjúklinginn í stað þess að gera rafræna umsókn mögulega eins og fyrir aldraða. Fyrir ári þegar ég tók upp stöðu þessa hóps, þ.e. 14. október 2004, lofaði ráðherra að setja vinnuhóp á laggirnar um málefni yngri alzheimersjúklinga. Ég get ekki séð að staðið hafi verið við það, a.m.k. kom það fram í umræðum fyrir nokkrum vikum að svo hefði ekki verið. Ég ætla að vitna í ræðu hæstv. ráðherra frá því 13. október í fyrra. Þar segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni í svari við fyrirspurn minni, með leyfi forseta:

,,Ég hef ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að skoða þessi mál gaumgæfilega og mun óska eftir því að hann skili mér áliti ásamt tillögum um úrbætur og framtíðarfyrirkomulag þessara mála.“

Ég spyr hæstv. ráðherra hverjar tillögur vinnuhópsins hafi verið eða hvort hann hafi verið settur á laggirnar og ég vil spyrja hæstv. ráðherra eins og fram kemur í skriflegri fyrirspurn minni:

Telur ráðherra eðlilega staðið að ráðstöfun hjúkrunarrýma fyrir hjúkrunarsjúklinga undir 67 ára aldri?