132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Ráðstöfun hjúkrunarrýma.

153. mál
[13:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. spyr hvort ráðherra telji eðlilega staðið að ráðstöfun hjúkrunarrýma fyrir hjúkrunarsjúklinga undir 67 ára aldri. Til þess að svara því tel ég nauðsynlegt að gera grein fyrir því hvernig staðið er að þessum málum, breytingum sem urðu á fyrirkomulagi við ráðstafanir hjúkrunarrýma 67 ára eða yngri með reglum sem ráðuneytið tilkynnti nýlega og vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu um framtíðarskipan þessara mála.

Allir landsmenn eiga óháð aldri rétt á vistun í hjúkrunarrými ef þeir þurfa þess með og fullreynt er að önnur úrræði sem miða að því að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu, svo sem heimaþjónusta eða dagvistun, duga ekki. Aldraðir eru þorri þeirra sem þarfnast langvistunar í hjúkrunarrými. Úrræðin taka mið af því og eru flest gerð úr garði með þarfir aldraðra í huga, fyrst og fremst, þótt einnig séu til úrræði fyrir yngri hjúkrunarsjúklinga, svo sem sérstök deild á Skógarbæ í Reykjavík, rými fyrir geðsjúka í Ási í Hveragerði og hjúkrunarrými á heimili Sjálfsbjargar á Hlein, sem er heimili fyrir fólk sem orðið hefur fyrir heilaskaða.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi eru ákveðin úrræði til fyrir yngri hjúkrunarsjúklinga en alltaf er eitthvað um að fólk vistist inn á hjúkrunarheimili þótt það sé ekki orðið 67 ára en flestir þeirra eru komnir nærri þeim aldri. Ég hef orðið var við ákveðinn misskilning hvað þetta áhrærir á þann veg að einungis sé heimilt að vista fólk á hjúkrunarheimili hafi það náð 67 ára aldri. Það er ekki rétt enda eru hjúkrunarheimili skilgreind í lögum um heilbrigðisþjónustu sem vistheimili fyrir aldraða og sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina en þarfnast vistunar og meðferðar sem hægt er að veita utan almennra og sérhæfðra sjúkrahúsa.

Þegar aldraðir sækja um vistun í hjúkrunarrými er skylt samkvæmt lögum að gera fyrst vistunarmat þar sem mat er lagt á þörf viðkomandi fyrir hjúkrunarrými út af heilsufarslegum og félagslegum aðstæðum. Eins er kannað hvort önnur úrræði hafi verið fullreynd. Til skamms tíma var einnig gert vistunarmat fyrir fólk yngra en 67 ára sem sótti vistunarhjúkrunarrými þó að það væri ekki skylt samkvæmt lögum.

Þegar vistunarmatið varð rafrænt árið 2004 var gerð vistunarmats fyrir yngri hjúkrunarsjúklinga hætt enda var það eingöngu ætlað 67 ára og eldri, sniðið að þörfum og aðstæðum aldraðra og sérstaklega ætlað að halda saman á einum stað upplýsingum um stofnanaþjónustu fyrir þennan aldurshóp. Frá þeim tíma hefur verið skylt að beina umsóknum um vist á hjúkrunarrýmum fyrir yngri en 67 ára til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Fyrir skömmu gaf ráðuneytið út sérstakar reglur um ráðstöfun hjúkrunarrýma og ferli umsókna um dvöl á hjúkrunarheimili fyrir þá sem ekki eru orðnir 67 ára þar sem kveðið er á um hvaða upplýsingar þurfi að liggja til grundvallar svo unnt sé að taka afstöðu til slíkra umsókna.

Aðstæður yngri hjúkrunarsjúklinga eru oft ólíkar aðstæðum aldraðra. Á það ekki síst við um félagslegar aðstæður þeirra en einnig eru heilsufarsvandamál þeirra oft allt önnur. Meðal annars af þeim ástæðum tel ég að umsóknir yngri hjúkrunarsjúklinga um hjúkrunarrými séu skoðaðar sérstaklega og þeim haldið aðskildum frá umsóknum aldraðra.

Að undanförnu hafa málefni hjúkrunarsjúklinga yngri en 67 ára verið til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu. Fyrirhugað er að stofna þverfaglegt teymi sérfræðinga sem verði falið að meta aðstæður allra umsækjenda hjúkrunarrýmis sem eru yngri en 67 ára, hvar á landinu sem þeir búa, og ganga úr skugga um hvort önnur úrræði hafi verið fullreynd. Tryggja á að innan teymisins verði full yfirsýn yfir tiltæk úrræði á hverjum stað og víðtæk þekking á þeim heilsufarsvandamálum, sálrænum og félagslegum þáttum, sem máli skipta við mat á aðstæðum hvers og eins. Einnig er tilgangurinn að tryggja heildaryfirsýn yfir aðstæður yngri hjúkrunarsjúklinga á landsvísu. Við skoðun á aðstæðum yngri hjúkrunarsjúklinga hefur heilbrigðisráðuneytið haft samráð við félagsmálaráðuneytið, sem er mikilvægt vegna þess að úrræði fyrir þennan hóp liggja oft á sviðum beggja ráðuneyta og erfitt að greina þar á milli.

Nú ætla ég að víkja beint að svari við fyrirspurn hv. þingmanns. Svar mitt er að ég tel fullkomlega eðlilega staðið að ráðstöfun hjúkrunarrýma fyrir þennan hóp. Hins vegar er verið að skoða málefni yngri hjúkrunarsjúklinga í ráðuneytinu og má vænta einhverra breytinga í þeim efnum áður en langt um líður eins og ég gat um áðan.

Þeirri vinnu sem hv. fyrirspyrjandi kallaði eftir hefur verið sinnt innan ráðuneytisins. Ég vona að ég hafi þar með veitt hv. þingmanni svar við fyrirspurn hennar.