132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn í Afganistan.

161. mál
[13:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef lagt þrjár spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra sem varða stöðu íslensku friðargæslunnar, sem svo er kölluð, eða hermanna, sem sumir telja að allt eins sé rétt að kalla þá, sem nú dvelja á vegum Íslands í Afganistan.

Sá sem hér stendur hefur lengi gagnrýnt það hvernig umrædd mál hafa þróast og sérstaklega þá tilhneigingu að vopna þessa erlendu starfsmenn, senda til átakasvæða og skipa þeim þar í lið með hermönnum annarra ríkja, sem eru þar undir herskipulagi, bera hernaðarlega titla o.s.frv. Þessa gætti fyrst að ráði þegar íslenskir menn störfuðu í Kosovo en sérstaklega á flugvellinum í Pristina.

Síðan virðist hafa verið gengið skrefi lengra þegar starfsmenn voru sendir til Afganistan og sérstaklega nú, þegar íslenskir friðargæsluliðar urðu hluti af hreyfanlegum eða hernaðarlegum athugunarsveitum NATO í norður- og vesturhluta Afganistan. Erlend skammstöfun yfir þessar sveitir eru MOT sem er ýmist þýtt, þegar að er spurt, sem „Military Observation Team“ eða „Mobile Observation Team“. Það virðist því á reiki, eftir því við hvern er talað, hvort um sé að ræða hreinar hernaðarlegar athugunarsveitir eða hreyfanlegar athugunarsveitir. Að sjálfsögðu hafa Íslendingar kosið seinni þýðinguna og reyna að skýla sér á bak við að ekki sé um hernaðarlegt hlutverk eða hernaðarleg verkefni að ræða.

Davíð Logi Sigurðsson, blaðamaður Morgunblaðsins, var á ferð í Afganistan í lok septembermánaðar og birti athyglisverða fréttaskýringu þar sem vakin var athygli á því og spurt hvort væri frekar um að ræða, uppbyggingarstarf eða hernaðarverkefni. Í Morgunblaðinu er í leiðara tekið svo fast til orða að þar hafi menn verið komnir langt út fyrir þá verkefnalýsingu sem gefin var af utanríkisráðuneytinu. Vitnað er í ræðu utanríkisráðherra á Alþingi þar um og spurt hvernig á þessu standi, hver hafi gefið leyfi eða heimild til þess að málin þróuðust í þessa veru. Enn fremur segir Morgunblaðið að Alþingi Íslendinga hafi ekki tekið ákvörðun um að setja á fót íslenskan her og heldur ekki vísi að íslenskum her og að enginn nema Alþingi geti tekið slíka ákvörðun.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra:

Hvernig skýrir ráðherra þátttöku íslenskra friðargæsluliða, svokallaðra, í hreinræktuðum hernaðarverkefnum innan endurreisnarsveita alþjóðlega öryggisliðsins í Afganistan?

Hverju sætir að þátttakan hefur ekki verið kynnt sem slík og borið undir utanríkismálanefnd?

Að lokum spyr ég hvort ríkisstjórnin líti svo á að enn séu í gildi stefnan um herleysi og vopnleysi Íslands.