132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn í Afganistan.

161. mál
[13:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en lýsi jafnframt mikilli óánægju með þau. Það er ekki hægt að afgreiða þessi mál þannig að segja bara að fyrirspyrjandi hafi gefið sér forsendur sem ekki standist og þar með þurfi ekki að svara fyrirspurninni efnislega í raun og veru. Hæstv. ráðherra verður að fara yfir og útskýra þá hvernig er hægt að halda því fram að menn séu hér ekki komnir inn í hernaðarleg verkefni þegar allt þetta liggur fyrir sem nú blasir við. Í úttekt Morgunblaðsins er vitnað í ofursta á svæðinu, yfirmann á svæðinu sem undirstrikar hið hernaðarlega hlutverk aðkomusveitanna sem m.a. sé fólgið í því að fara út um sveitir, safna upplýsingum sem ganga til herstjórnarinnar svo hún geti eftir atvikum gripið til aðgerða á svæðinu. Þetta eru í raun og veru upplýsingagjafar, könnunaraðilar fyrir herinn á svæðinu. Það er ósambærilegt það hlutverk sem íslenskir starfsmenn þarna, alvopnaðir, með hertitla úti í feltinu eru komnir í það sem læknar og hjúkrunarfræðingar inni á spítölum unnu í árdaga þessarar starfsemi. Það er óviðeigandi að gera slíkan samjöfnuð eins og hæstv. ráðherra gerði hér. Ef þrautþjálfaðir menn úr víkingasveitunum hafandi fengið viðbótarhernaðarþjálfun í Noregi með vélbyssur, ekki bara einhver létt handvopn, heldur verulega öflug drápstæki eiga í hlut. Það er ámælisvert hvernig þetta hefur þróast í höndum framkvæmdarvaldsins. Hér hafa engin lög verið sett. Það hefur engin stefna verið mótuð. Alþingi hefur ekki komið að málinu í utanríkismálanefnd nema eftir á í öllum tilvikum. Og ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Stendur til að breyta þessu? Verða sett lög um þessa starfsemi? Verður mótuð stefna? Fær Alþingi eða utanríkismálanefnd aðild að þeirri vinnu? Eða kæmi til greina t.d. að skipa sérstaka þingkjörna stjórn yfir þessari starfsemi? Hér eru mjög alvarleg mál á ferð og menn gera réttast (Forseti hringir.) í því, áður en að menn eru dottnir ofan í brunninn, að vinna þá vinnu sem auðvitað hefði átt að (Forseti hringir.) gera í byrjun.